140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég gerði tilraun til þess í morgun að fá samtal við þingmenn Vinstri grænna, byrjaði á því að óska eftir samtali við hv. þm. Árna Þór Sigurðsson en hann er staddur erlendis. Þá óskaði ég eftir því að fá samtal við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur en hún er líka stödd erlendis þannig að ég ætla að eiga eintal við sjálfa mig um þau efni sem ég ætla að fara yfir. Mig langaði nefnilega að ræða þau mál sem brenna á kjósendum Vinstri grænna vegna þess að þessir þingmenn hafa tilheyrt hinum kratíska armi Vinstri grænna. Flestir vita að þeir héldu landsfund sinn nú um helgina. Það er skemmst frá því að segja að í ályktunum frá fundinum er bakkað aðeins út úr þeirri stefnu sem snýr að ríkisstjórnarsamstarfinu um aðildarumsóknina að ESB. Farið var aftur á bak með stefnuna í þá átt sem kveður á um í umsókninni sem lögð var inn 2009. Sem dæmi má nefna ályktuðu Vinstri grænir að í „yfirstandandi aðildarviðræðum beri að hafna því að Ísland afsali sér forræði og yfirstjórn sjávarauðlinda innan íslenskrar efnahagslögsögu“ og einnig að Íslendingar héldu „samningsrétti vegna deilistofna á Íslandsmiðum“, svo sem vegna makríls, kolmunna, úthafskarfa, loðnu og norsk-íslensku síldarinnar.

Hér kveður við nýjan tón. Þarna eru Vinstri grænir að skerpa stefnu sína í því um hvað skal standa vörð og hverju skal hafna. Þetta er þvert á það sem Samfylkingin hefur talað um. Við stöndum í deilu við Evrópusambandið vegna makrílsins þannig að mig langaði til að varpa þessum spurningum fram til hv. formanns utanríkismálanefndar en því miður verð ég að tala um það síðar. Hér er um mikla (Forseti hringir.) stefnubreytingu að ræða og ég tel jafnvel (Forseti hringir.) að ríkisstjórnarsamstarfið sé í hættu.