140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur almennt verið viðurkennt að uppbygging í orkufrekum iðnaði sé einn helsti möguleiki okkar til viðspyrnu út úr þeirri viðvarandi kreppu sem hér ríkir. Landsvirkjun setti í sumar fram mjög áhugaverða framkvæmdaáætlun sem tekur til virkjanaframkvæmda á árunum 2011 eða 2012 til 2025. Í þeirri áætlun er að finna virkjanakosti sem almennt ætti að geta verið nokkuð mikil sátt um. Það eina sem þarf til að sú framkvæmdaáætlun geti orðið að veruleika er að ríkisstjórnin taki ákvörðun um að stíga þessi skref.

Í sáttmála hæstv. ríkisstjórnar kemur fram að engar ákvarðanir verði teknar fyrr en rammaáætlun liggur fyrir. Eftir að rammaáætlun kom frá vinnuhópum um hana hafa iðnaðar- og umhverfisráðherrar sett málið í pólitískan farveg og stundað ákveðin hrossakaup í niðurröðun á mögulegum virkjanakostum. Yfirlýsingar hæstv. iðnaðarráðherra um mikilvægi rammaáætlunar eru öllum kunnar en nú ber svo við að annar ríkisstjórnarflokkurinn var með landsfund sinn um liðna helgi. Þar má segja að öllum málamiðlunum um vinnu og niðurstöðu við rammaáætlun hafi verið hafnað. Þar er lagt til að allir þeir virkjanakostir sem einhverjar deilur kunna að standa um og eru í nýtingarflokki séu settir í biðflokk og jafnvel í verndarflokk. Þetta er mjög alvarlegt mál og líf ríkisstjórnarinnar er væntanlega að veði varðandi þessa ályktun.

Þetta þýðir að við munum ekki nota þessa viðspyrnu sem er okkur svo mikilvæg. Þetta mun einfaldlega þýða að við náum okkur ekki af stað út úr þeirri miklu kreppu sem hér ríkir. Hér verður áframhaldandi stöðnun.

Virðulegi forseti. Núna reynir (Forseti hringir.) mjög á skynsemi og forgangsröðun þeirra þingmanna stjórnarliðsins (Forseti hringir.) sem sjá villurnar í því að standa vörð (Forseti hringir.) um þjóðarhagsmuni og sýna í verki (Forseti hringir.) að þeir taki þjóðarhag fram yfir aðildarviðræður (Forseti hringir.) að Evrópusambandinu.