140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Heilbrigðisstofnun Þingeyinga átti 75 ára afmæli á sunnudaginn og vert er að óska henni til hamingju. Það mátti sjá bros og væntingar eftir að tillögur Vinstri grænna lágu fyrir vegna þess að þar er komið það veganesti sem Vinstri grænir áttu að fylgja eftir inni á Alþingi.

Ég heyrði því miður enga stefnubreytingu í þeirri umræðu sem kom hér frá hv. þm. Birni Vali Gíslasyni. Ég get alveg fullvissað hann um að það er mikill ágreiningur um þá stefnu sem hefur verið boðuð um niðurskurð í heilbrigðismálum. Það var lagt af stað með stefnu í fyrra og henni skal fram haldið á þessu ári. Það er verið að ganga að heilbrigðisstofnunum víðs vegar um land inn að beini og stórskerða þau gæði sem íbúarnir hafa haft á þeim svæðum.

Það eru fleiri tækifæri og mig langar til að benda á eitt á þessu svæði, norðausturhorninu. Á nýsköpunarþingi í morgun var rætt um staðsetningu umskipunarhafnar. Umskipunarhöfn er eitthvert mest spennandi verkefni sem hefur rekið á fjörur Íslendinga, gæti aukið hagvöxtinn gríðarlega og aukið atvinnu á svæði sem er kalt í atvinnulegu tilliti, en það þarf að berjast fyrir umskipunarhöfninni. Ég hef ekki heyrt mikið frá núverandi ríkisstjórn um að hún ætli að berjast fyrir því að fá umskipunarhöfnina til Íslands. Ég legg til að sú barátta verði hafin hið snarasta. Við eigum í samkeppni við önnur lönd. (Forseti hringir.) Við verðum einfaldlega undir í samkeppninni (Forseti hringir.) ef ekkert breytist í þessum efnum.