140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Aðeins hefur verið rætt um landsfund Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem haldinn var um helgina. Ég hélt satt að segja að ég hefði misst af einhverjum stórum atburðum í þjóðlífinu þar sem ég var á ferð um Suðurkjördæmi alla kjördæmavikuna og um helgina. Þegar ég fór að heyra ályktanirnar, umræðurnar og fréttirnar frá þessum fundi hélt ég hreinlega að það hefði gerst sem ég gæti alveg hugsað mér að gerðist, að Vinstri grænir væru farnir úr ríkisstjórn. Það var alveg kostulegt að fylgjast með ályktunum þeirra.

Þeir álykta gegn ESB; það er ómögulegt að vera í ESB og það er bannað að aðlaga sig að ESB. Við vitum öll hvað þar má álykta. Þeir álykta gegn niðurskurði í heilbrigðismálum og nú er verið að rífast um hvort miðað er við núverandi fjárlagafrumvarp eða við samþykkt síðustu fjárlaga. Síðan vilja þeir lengja fæðingarorlof og hafa 100% greiðslur til allra foreldra, reyndar með einhverju þaki svo allrar sanngirni sé gætt, en á sama tíma skera þeir fæðingarorlofið niður.

Það kostulegasta finnst mér þó í ályktun um byggða- og samgöngumál. Þar segir, með leyfi forseta:

„Er sérstaklega brýnt að:

[…] Fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni og tryggja starfsemi í heilbrigðis- og menntakerfi á landinu öllu, samhliða mikilli uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu. Tryggja þarf að sú uppbygging komi ekki niður á störfum á landsbyggðinni.“

Jahá. Við fórum öll út um kjördæmin okkar í síðustu viku og hver var samnefnari þess sem á sér stað um allt land? Jú, hann er sá að verið er að fækka opinberum störfum á landsbyggðinni, sérstaklega í heilbrigðiskerfinu. Til dæmis verða skorin niður 17 stöðugildi til viðbótar öllu því sem búið er að skera niður á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Í Vestmannaeyjum er enn verið að berjast fyrir því að halda skurðstofunni á staðnum opinni. Sama dæmið er á Selfossi og hjá Þingeyingum. Það eru vandamál um allt land. (Forseti hringir.) En nei, nei, Vinstri grænir álykta um að tryggja störf úti á landsbyggðinni. (Forseti hringir.) Ég spyr bara: Eruð þið ekki að grínast? (Forseti hringir.) Það getur enginn tekið þetta alvarlega lengur.