140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að þetta eru geigvænlegar fréttir frá Evrópusambandinu. En ég ætla að ræða um hinn fræga landsfund Vinstri grænna og spyr formann fjárlaganefndar, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, hvort hún sé sammála áherslum á landsfundi Vinstri grænna um helgina um að heilbrigðiskerfið sé löngu komið að þolmörkum og að aukið svigrúm í ríkisfjármálum verði nýtt í þágu heilbrigðisþjónustu með því að draga úr niðurskurði. Eða ætlar Samfylkingin að standa að óvinsælum niðurskurði í fjárlaganefnd á sama tíma og landsfundur Vinstri grænna berst gegn niðurskurði?

Telur hv. þingmaður að landsfundur Vinstri grænna sé á móti fjárlagafrumvarpi hæstv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, sem vill svo til að er formaður þess ágæta flokks? Hvernig túlkar hún þau mótsagnakenndu skilaboð sem koma frá landsfundinum?

Á fimmtudaginn var lofræðufundur um AGS og þá mátti þessi sami hæstv. fjármálaráðherra vart halda vatni vegna hrifningar af niðurstöðu þess fundar. Síðan er rifist um hvort umsóknin í Evrópusambandið sé í aðlögunarferli eða samningaferli og í það eru settir nægir peningar. Það er til nóg af peningum til að ráða fólk og þýða og ég veit ekki hvað. Svo er afstaðan til Icesave mótsagnakennd þar sem þessi sami hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon hefur barist fyrir því endalaust að samþykkja Icesave. En hann fór samt í kosningabaráttuna með það að fororði að hann skyldi aldrei samþykkja Icesave. Hvað segir hv. þingmaður formaður fjárlaganefndar um þessi mótsagnakenndu skilaboð frá samstarfsflokknum?