140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

íslenskur ríkisborgararéttur.

135. mál
[14:11]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, með síðari breytingum.

Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi en var ekki afgreitt. Það er nú lagt fram á ný með lítils háttar breytingum á 3. gr.

Í frumvarpinu eru lagðar til þrenns konar breytingar sem snúa fyrst og fremst að því að lagfæra agnúa sem fram hafa komið við framkvæmd laganna. Í fyrsta lagi eru lagðar til minni háttar breytingar á ákvæðum í 8. gr. laganna er varða búsetu hér á landi og búsetuleyfi. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á 6. tölulið 9. gr. þar sem eru ákvæði um heimild til að veita íslenskan ríkisborgararétt ef umsækjandi hefur sætt sektum eða fangelsisrefsingu.

Í þriðja lagi er lagt til að endurvakið verði tímabundið ákvæði sem var til bráðabirgða í lögum í fjögur ár, á árunum 2003–2007, um heimild handa þeim sem misst hafa íslenskan ríkisborgararétt til að fá hann endurveittan. Sú breyting hefur verið gerð frá því að frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi að lagt er til að heimild þessi verði tímabundin til 1. júlí 2015. Ég mun nú gera nánari grein fyrir breytingunum.

Í 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til þrenns konar breytingar á 8. gr. laganna. Í 2. tölulið 1. mgr. 8. gr. laganna er að finna það skilyrði fyrir íslenskum ríkisborgararétti þegar umsækjandi er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara að umsækjandi hafi verið búsettur hér á landi í þrjú ár frá giftingu enda hafi hinn íslenski maki haft íslenskan ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár.

Í frumvarpi þessu er lagt til að við ákvæðið verði bætt að umsækjandi hafi á þeim tíma verið samvistum við maka sinn. Er lagt til að kveðið verði skýrt á um þetta skilyrði í lögum sem er í samræmi við þá túlkun sem verið hefur á ákvæðinu í framkvæmd. Þá er lögð til lítils háttar breyting á 3. tölulið 1. mgr. 8. gr. þar sem lagt er til að tekin verði út orðin „og bæði eru ógift“ þar sem sambúð verður hér eftir ekki skráð í þjóðskrá nema uppfyllt séu sömu lagaskilyrði og þegar fólk gengur í hjúskap. Orðalag ákvæðisins eins og það er nú á ekki lengur við.

Í 3. mgr. 8. gr. laganna er tekið fram að umsækjandi um íslenskan ríkisborgararétt skuli uppfylla þau skilyrði sem gerð eru í útlendingalögum fyrir búsetuleyfi útgefnu af Útlendingastofnun og að hann skuli jafnframt hafa slíkt leyfi þegar umsókn er lögð fram nema hann sé undanþeginn skyldu til að hafa dvalarleyfi hér á landi. Ákvæðið hefur verið túlkað þannig að allir umsækjendur verði að uppfylla skilyrði sem sett eru í útlendingalögum til útgáfu búsetuleyfis, líka þeim sem undanþegnir eru því skilyrði að hafa dvalarleyfi á Íslandi. Er hér einkum um að ræða norræna ríkisborgara, útlendinga sem öðluðust íslenskan ríkisborgararétt við fæðingu en hafa misst hann eða afsalað sér honum, þá sem eiga íslenskan ríkisborgara að öðru foreldri og útlendinga í hjúskap eða skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara.

Þar sem lög um íslenskan ríkisborgararétt gera í sumum tilvikum ráð fyrir skemmri búsetutíma fyrir þá einstaklinga sem undanþegnir eru dvalarleyfi en krafist er vegna búsetuleyfis hefur skapast misræmi milli ákvæða útlendingalaga og laga um íslenskan ríkisborgararétt. Þykir því rétt að kveða skýrt á um að þeir einstaklingar sem ekki þurfa dvalarleyfi hér á landi samkvæmt útlendingalögum þurfi ekki að uppfylla skilyrði fyrir búsetuleyfi samkvæmt útlendingalögum.

Í 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til nokkrar breytingar á 6. tölulið 9. gr. laganna sem lögfest var með lögum nr. 81/2007. Þá var ráðherra veitt heimild til að veita íslenskan ríkisborgararétt að liðnum tilteknum biðtíma þó svo að umsækjandi hefði hlotið sekt eða verið dæmdur í fangelsi. Í frumvarpi þessu er lagt til að biðtími varðandi sektir sem eru lægri en 50 þús. kr. verði felldur niður en hingað til hafa mjög lágar sektir getað frestað veitingu ríkisborgararéttar um eitt ár. Rök fyrir því eru m.a. hækkanir sektarrefsinga frá setningu ákvæðisins. Einnig er lagt til að ráðherra verði heimilað að veita ríkisborgararétt að liðnum biðtíma þrátt fyrir að umsækjandi hafi endurtekið brotið af sér ef samanlögð fjárhagssekt er lægri en 101 þús. kr.

Í 3. gr. er að lokum lögð til breyting á bráðabirgðaákvæði sem er í núgildandi lögum. Lagt er til að 1. og 2. mgr. falli brott þar sem sambærileg ákvæði eru nú í 16. gr. laganna. Þá er lagt til að endurvakið verði tímabundið ákvæði sem var til bráðabirgða í lögunum frá 1. júlí 2003 til 1. júlí 2007 um heimild til að endurveita íslenskan ríkisborgararétt þeim sem misst hafa íslenskt ríkisfang sitt við það að sækja um annað ríkisfang. Ákvæðið er efnislega samhljóða texta sem var að finna í 3.–5. mgr. í bráðabirgðaákvæði núgildandi laga en fallin eru úr gildi. Nokkur fjöldi manna nýtti þessa heimild á sínum tíma en reynslan hefur sýnt að margir sem hefðu getað nýtt sér bráðabirgðaákvæðið vissu ekki um þennan möguleika. Hér er því lagt til að ákvæðið verði tekið upp á ný tímabundið til 1. júlí 2015 þannig að þeir sem misstu á sínum tíma íslenskt ríkisfang við að fá annað ríkisfang geti endurheimt íslenska ríkisfangið leggi þeir umsókn um það á sérstöku eyðublaði ráðuneytisins fyrir 1. júlí 2015.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.