140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

íslenskur ríkisborgararéttur.

135. mál
[14:18]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir þetta innlegg í umræðuna. Mér er kunnugt um sjónarmið hv. þingmanns og gagnrýni sem áður hefur komið fram af hennar hálfu á valdheimildir Alþingis til veitingar ríkisborgararéttar. Ég þykist hins vegar vita að ég og þingmaðurinn séum sammála um að varnaglar þurfi að vera til staðar í öllum kerfum á einhvern hátt, hvort sem það er hjá Alþingi eða annars staðar. Ég legg til að öll þessi mál verði skoðuð í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar, allsherjar- og menntamálanefnd. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns er þetta frumvarp fyrst og fremst tillaga til breytinga á lögum til samræmis við þá framvindu sem orðið hefur, verið er að færa viðmiðunarupphæðir í sektarákvæðum til samræmis við verðlagsþróun og annað af slíku tagi. Það sem hv. þingmaður vísaði hins vegar til snertir meira grundvallaratriði en er að sjálfsögðu æskilegt að tekið verði til skoðunar.