140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[14:25]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998.

Með frumvarpinu er stefnt að því að gera núgildandi bann við áfengisauglýsingum bæði skýrara og skilvirkara.

Frumvarpið var áður flutt á 139. löggjafarþingi en var ekki afgreitt. Við vinnslu málsins í allsherjarnefnd lagði meiri hluti nefndarinnar til breytingar á frumvarpinu sem vörðuðu hugtakanotkun, refsiheimildir og undanþágur frá áfengisauglýsingabanni. Tekið hefur verið tillit til þessara breytingartillagna allsherjarnefndar í því frumvarpi sem nú er lagt fram. Hugtakið viðskiptaboð kemur nú í stað orðsins viðskiptaorðsending til þess að gæta samræmis við lög um fjölmiðla og að skýrt sé að til viðskiptaboða teljist kostun fjölmiðlaefnis og kostun í tengslum við samkomur eða atburði. Þá hefur undanþága frá auglýsingabanni þess efnis að bannið taki ekki til auðkenna með firmanafni og/eða firmamerki á flutningatækjum áfengisframleiðenda verið felld brott.

Meiri hluti nefndarinnar lagði einnig til breytingu á refsiákvæði 27. gr. áfengislaganna þannig að brot gegn 20. gr. áfengislaga um auglýsingar yrðu tekin undan refsiákvæðinu þar sem þau eiga að hljóta stjórnsýslulega meðferð og varða þannig eingöngu stjórnvaldssektum. Með hliðsjón af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins og mikilvægis skýrleika refsiheimilda var einnig gerð sú breyting að kveðið er skýrt á um að Neytendastofa geti lagt stjórnvaldssektir á hvern þann einstakling eða lögaðila sem af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn 20. gr. laganna auk þess sem við var bætt að lögaðila megi ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á starfsmann lögaðilans. Að öðru leyti er frumvarpið lagt fram óbreytt frá síðasta þingi.

Auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar hér á landi sem kunnugt er og hefur þannig lengi verið. Í frumvarpi þessu er lögð sérstök áhersla á að koma í veg fyrir að farið sé í kringum bannið með því að auglýsa óáfenga vöru með ríkri tilvísun til hinnar áfengu vöru eins og reyndin hefur því miður verið. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru m.a. þær að í stað þess að bannið gildi einungis um auglýsingar nái það jafnframt til annarra viðskiptaboða til markaðssetningar á áfengi og einstökum áfengistegundum. Verði frumvarpið að lögum verður gildissvið bannsins þar með orðið víðtækara en áður hefur verið.

Þrátt fyrir að í gildi sé bann við auglýsingum á áfengi hér á landi hefur aukist að framleiðendur og dreifingaraðilar áfengra drykkja reyni að koma vöru sinni á framfæri í auglýsingum með því að nota líkar umbúðir og nöfn á óáfengum drykkjum sem þeir svo auglýsa. Með þessu frumvarpi er einnig stefnt að því að koma í veg fyrir að hægt sé að fara í kringum núgildandi bann líkt og verið hefur með því að kveða á um að framangreint bann nái einnig til vökva eða vöru sem er undir 2,25% af hreinum vínanda ef um er að ræða markaðssetningu í umbúðum sem geta skapað hættu á ruglingi milli áfengu vörunnar og hinnar óáfengu. Markmiðið með þessari breytingu er að girða fyrir að hægt sé að auglýsa óáfenga framleiðslu með svo sterkri skírskotun til hinnar áfengu framleiðslu að í raun verði ekki dregin önnur ályktun en sú að verið sé að auglýsa hina áfengu vöru.

Að auki er lögð til ein veigamikil breyting til viðbótar sem er að eftirlit með banni gegn brotum við auglýsingum á áfengi samkvæmt 20. gr. laganna verði á hendi Neytendastofu en ekki hjá lögreglu líkt og nú tíðkast. Neytendastofa hefur nú þegar eftirlit með villandi og óréttmætum auglýsingum samkvæmt lögum nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, og hefur því yfir að ráða talsverðri sérþekkingu og reynslu á þessu sviði. Auglýsingaeftirlit er sérhæft og tæknilega erfitt að fást við það en eftirlit með viðskiptaorðsendingum að því er varðar áfengi gæti vel farið með þeim verkefnum sem Neytendastofa annast nú þegar. Á Norðurlöndunum er eftirlit með banni við áfengisauglýsingum í stjórnsýslulegum farvegi þar sem ákveðnar eftirlitsstofnanir hafa eftirlitshlutverk í stað lögreglu. Er hér því lagt til að farin verði sambærileg leið. Þá hefur verið bætt inn fleiri undanþágum við banni á auglýsingum um áfengi en það helgast meðal annars af þátttöku okkar á alþjóðlegum vettvangi og skyldum sem leiða af EES-samningnum.

Áfengisauglýsingabanni er ætlað að vernda heilsu almennings fyrir skaðvænlegum afleiðingum áfengisneyslu. Sýnt hefur verið fram á að áfengi er meðal áhættuþátta sem valda sjúkdómum og er einn helsti áhættuþáttur meðal ungs fólks. Samkvæmt skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar er talið að áfengi hafi áhrif á allt að 60 skilgreinda sjúkdóma og heilbrigðisvandamál og þá getur misnotkun áfengis haft skaðleg áhrif á aðra en neytandann sjálfan. Helstu heilsufarsleg áhrif neyslu áfengis eru slys ýmiss konar, ofbeldi, sjálfsvíg, tauga- og geðsjúkdómar, hjarta- og æðasjúkdómar, lifrarsjúkdómar og krabbamein.

Þrátt fyrir að í gildi sé bann við auglýsingum á áfengi hér á landi hefur aukist að framleiðendur og dreifingaraðilar áfengra drykkja reyni að koma vöru sinni á framfæri í auglýsingum með því að nota líkar umbúðir og nöfn á óáfengum drykkjum, sem þeir svo auglýsa. Með þessu frumvarpi er stefnt að því að koma í veg fyrir að hægt sé að fara í kringum núgildandi bann líkt og verið hefur og að gera allt eftirlit með brotum á banninu skilvirkara.

Virðulegi forseti. Ég hef nú reifað helstu atriði og sjónarmið frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.