140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[14:37]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, að vissu leyti er ég það en ég vil ekki gefast upp við að koma auglýsingum á áfengi út úr okkar veruleika þótt ég ráði ekki við Time eða Newsweek eða erlend tímarit sem eru seld hér. Ég er því almennt fylgjandi að við höfum ekki áfengisauglýsingar. Er það íþyngjandi? Já, að sjálfsögðu. Þær banna auglýsingar á áfengi. Hvers vegna eru þeir sem selja slíka vöru reiðir yfir því? Það er vegna þess að það dregur úr neyslu. Það dregur úr áfengisdrykkju, bannið dregur úr áfengisdrykkju. Það dregur úr möguleikum þeirra til að koma þeirri vöru á framfæri og út á það gengur viðleitni okkar, þ.e. að stemma stigu við neyslu áfengis. Hvers vegna? Vegna þess að áfengi í óhófi veldur miklu samfélagslegu tjóni og tjóni á líkama og sál hjá þeim sem neyta þess í óhófi. Þess vegna erum við á þessari braut.