140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[14:40]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Málið fór í hendur allsherjarnefndar sem síðan kallar fyrir sig aðila sem tengjast þessum málum og spyr þá álits. Ég frábið mér að vera kallaður forræðishyggjumaður, ég er það ekki. En ég frábið mér líka þá forræðishyggju að veita áfengissölumönnum heimild til að heimsækja mig inn í stofu eða á síðum dagblaðanna með því að kaupa sig þangað inn með auglýsingum. Það er líka forræðishyggja. Það er frekja og forræðishyggja markaðarins að fara fram með þeim hætti og sérstaklega þegar um er að ræða bann sem er við lýði í lögum núna. Það er skýr áfengisstefna við lýði núna. Ef við ætlum að breyta henni þá gerum við það.

Ég verð að segja það líka sem mitt sjónarmið að ég virði að sjálfsögðu þá skoðun þó að ég sé henni mjög ósammála að leyfa eigi áfengisauglýsingar. En þá skulum við líka gera það. Þá skulum við setja lög sem leyfa áfengisauglýsingar. En við skulum ekki búa við lagasetningu sem bannar áfengisauglýsingar en gerir mönnum kleift að fara á bak við lögin. Lögin eiga að vera skýr. Ef Alþingi kemst að þeirri niðurstöðu að leyfa eigi áfengisauglýsingar þá gerum við það. Ef Alþingi kemst að hinni niðurstöðunni sem Alþingi komst að, sem löggjafinn komst að þegar áfengisstefna var mótuð á sínum tíma um að banna slíkar auglýsingar þá skulum við líka virða það bann en ekki hafa göt í lögunum sem gera það að verkum að menn fara á bak við lögin. Það er mjög óheilbrigt og slæmt. En við skulum þá taka hina umræðuna.