140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[14:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var eftirtektarvert að hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningum mínum um áfengisstefnuna. En það skiptir lykilmáli að mínu mati að menn séu ekki með einhvern bútasaum, að menn geti ekki komið og sagt: Núverandi ástand er ómögulegt, nú ætlum við að setja þetta fram — eftir ekkert samráð. Og það á að útiloka íslenska framleiðendur, eins og íslenskir framleiðendur hér heima eigi ekki nógu mikið í vök að verjast.

Það sem hæstv. ráðherra er að segja og með fullri virðingu því, hann vill vel í þessu máli en ég held að þetta sé röng leið. Af hverju hefði ekki verið nærtækara að bíða með það og koma frekar fram með heildstæða stefnu í áfengismálum í staðinn fyrir að koma fram með þetta mál? Við erum nefnilega sammála um að við eigum að reyna að spyrna við áfengisneyslu, við erum sammála um það. Eða erum við ekki sammála um það? Ég held það. Ég held að við séum nefnilega sammála um fleiri þætti. En í staðinn er mjög vanhugsað frumvarp sett fram, að mínu mati, og ráðherra hefði betur beðið með að koma með það þar til áfengisstefna stjórnvalda liggur fyrir. Hver er hún? Hún liggur ekki fyrir en verið er að vinna að henni. Það átti því að bíða með þetta frumvarp.

Ég undirstrika enn frekar seinni spurningu mína: Hvaða samstarf var haft við m.a. framleiðendur, við Samtök iðnaðarins og fleiri aðila sem eiga líka hagsmuna að gæta? Við vitum vel að samráð er haft í meðförum nefndarinnar og það munum við náttúrlega gera sem sitjum í allsherjar- og menntamálanefnd. Við munum að sjálfsögðu fara vel yfir málið. En var ekki í millitíðinni — frá því að frumvarpið var lagt fram í fyrra og fram komu við meðferð málsins á þingi mjög mikilvægar athugasemdir, mótbárur gegn því gamla frumvarpi — fólk kallað til m.a. til samráðs í ráðuneytinu og farið yfir það hvernig hægt væri að bæta þetta mál, sem að mínu mati hefði betur verið beðið með þar til sú áfengisstefna sem verið er að vinna að lægi fyrir?