140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[15:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur verið lamið harkalegra á mér en þetta. Það er alveg rétt, ég var í ríkisstjórn 2007–2009, sem hv. þingmaður studdi þá (MÁ: Nei.) alveg þar til í lokin. (Gripið fram í.) Það er ágætt að fá að vita strax að menn hafi ekki gengið hreint til verks. Það er ágætt að vita það núna. (Gripið fram í.) Ég er ekkert feimin við að fara yfir þann árangur sem hefur náðst í grunnskólum. Mér finnst merkilegt að þingmaður sem hefur m.a. setið í menntamálanefnd og haft mikinn áhuga á menntamálum (MÁ: Svaraðu spurningunni!) skuli koma hérna og segja að það sé ekkert að marka lengur rannsóknir sem hafa verið settar fram ár eftir ár varðandi grunnskólana. Af hverju höfum við sett á bæði forvarna- og eineltishópa í grunnskólum? Af hverju höfum við sett á forvarnateymi í framhaldsskólum? Af því að enginn árangur er af því? Hvers konar vitleysa er þetta?

Það sem ég er að segja en hv. þingmaður vill ekki hlusta á er: Ég tel að það sé hægt að nálgast málið saman. Ég heyri það greinilega að hv. þingmaður vill ekkert að við vinnum saman. Mér finnst það merkilegt. Það er samhljómur á þingi um það að berjast gegn áfengisbölinu. Af hverju á þá ekki að gera það saman? Af hverju á ekki að vinna eftir áfengisstefnunni eða alla vega bíða eftir þessum drögum að áfengisstefnu sem eiga að birtast innan tíðar? Af hverju ekki að bíða með það?

Ég segi enn og aftur: Við erum að fara úr öskunni í eldinn með því að breyta lögunum eins og þau eru núna. Það er mín skoðun og ég mun tala um það innan allsherjar- og menntamálanefndar. (Gripið fram í.) Ég tel að sé hægt að vinna að málunum öðruvísi. Ég hef enn þá trú að hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson vilji vinna málið í sátt og samlyndi og láta reyna á þann samstarfsvilja sem að mínu mati er til staðar í þinginu en hefur ekki enn reynt á.