140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[15:10]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að fagna enn og aftur því frumvarpi sem hér liggur fyrir, frumvarpi til laga um breytingu á áfengislögum, með síðari breytingum, þ.e. skýrara bann við auglýsingum. Þetta mál var lagt fram á síðasta þingi og var fullbúið til afgreiðslu en náðist ekki að afgreiða með því vinnulagi sem fram fór á því þingi. Þetta er eitt af mörgum málum sem náðist ekki að afgreiða.

Frumvarpið var þá sent út til umsagnar, allsherjarnefnd vann að því og nú hefur verið tekið tillit til þeirra fjölmörgu umsagna sem komu fram. Ég tel að þær séu af hinu góða. Ég tel að í þessu frumvarpi sé reynt, eins og hægt er að sjá fyrir, að bregðast við því banni sem gildir í dag. Það er sem sé bannað með lögum að auglýsa áfengi en fram hjá því hefur verið gengið með ýmsum hætti. Sérstaklega hafa framleiðendur, og ekki má gleyma innflytjendum, nýtt sér undanþágu í 3. mgr. 20. gr. núgildandi áfengislaga þar sem heimilað er að notuð séu firmanöfn eða merki áfengisframleiðenda í tengslum við auglýsingar á óáfengri drykkjarvöru, enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða.

Þessar auglýsingar hafa færst í aukana. Það er ómögulegt að sjá á lit umbúðanna eða merkingum á umbúðunum sjálfum þegar þær birtast á til dæmis sjónvarpsskjánum hvort um óáfengan eða áfengan bjór er að ræða. Maður þarf að hafa nokkuð góða sjón til að sjá litlu stafina sem birtast yfirleitt í horninu hægra eða vinstra megin til merkis um að um léttöl sé að ræða. Það er farið fram hjá anda núgildandi laga þegar þessi undanþága er notuð svona. Ég tel að menn geri þetta mjög markvisst og meðvitað. Það er óþolandi fyrir alla að horfa upp á þessa þróun og okkur ber að vinna löggjöfina á Alþingi svo skýrt að allir viti hvernig á að vinna samkvæmt henni og að ekki sé svo auðvelt að fara fram hjá henni.

Norðmenn hafa í gildi auglýsingabann á áfengi, en þeir eru ekki með undanþágu eins og við. Það hjálpar þeim að halda sínu banni og eru þeir alveg jafnopnir fyrir bæði erlendum dagblöðum, tímaritum og sjónvarpsrásum og við. Þeim gengur betur en okkur að halda þessu auglýsingabanni í Noregi.

Í frumvarpinu er sagt skýrt á hvaða sviðum þetta viðskiptaboð er undanþegið, það á að vera alveg hreint skýrt. Vitanlega er ekki hægt að koma í veg fyrir að inn til landsins séu flutt erlend tímarit þar sem auglýsingar eru heimilaðar. Aftur á móti stendur þetta upp á löggjafann, og þá í stefnumótun í áfengisvörnum, hvort við viljum heimila auglýsingar eða ekki. Að mínu mati er ekki hægt að fara hálfa leið og leyfa auglýsingar upp að einhverju ákveðnu marki. Um leið og auglýsingar eru leyfðar eru götuspjöld, auglýsingar, veggspjöld og annað komin upp og það er mjög erfitt að hafa áhrif þar á.

Ég tel að samhliða þessu þurfum við að horfa til þess að áfengisneysla virðist hafa aukist aftur í skólunum. Það má aldrei slaka á. Auðvitað þarf að vera mjög markviss forvarnavinna meðal barna og ungmenna og við eigum að reyna að koma í veg fyrir að ungmenni neyti áfengis eða byrji ung að drekka. Það er svolítið að henda peningunum út um gluggann ef við leyfum á sama tíma auglýsingar á áfengi. Þetta fer saman, þetta er nákvæmlega eins og með tóbakið, margir þættir þurfa að fara saman, forvarnir innan grunnskólanna og framhaldsskólanna, auglýsingabann á tóbak og áfengi, verðlag á báðum vörunum og þær fyrirmyndir sem við sýnum.

Ég fagna þessu frumvarpi og tel, eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir benti á, að við eigum að ná samstöðu um afgreiðslu þessa máls. Ég hef ekki orðið vör við einhvern samhljóm hjá þjóðinni í að leyfa áfengisauglýsingar. Við getum litið til þeirra landa þar sem þær eru leyfðar og séð umhverfi og ásýnd margra borga og hvaða áhrif auglýsingarnar hafa á áfengisneyslu. Við eigum að taka tillit til og horfa til tilmæla Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og allra hennar rannsókna, við eigum að vinna saman að því í allsherjar- og menntamálanefnd að ná samstöðu um að halda núgildandi banni við áfengisauglýsingum og finna bestu leiðina til að það bann haldi.