140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[15:21]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svörin. Ég vil leggja áherslu á að ég tel mjög brýnt að við í allsherjar- og menntamálanefnd fáum kynningu á þeirri stefnu sem verið er að endurvinna. Þetta tengist náttúrlega hinum hluta verkefna okkar í nefndinni sem er menntamálin. Ég tek algjörlega undir þær áherslur sem komu fram hjá fyrrverandi menntamálaráðherra, hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, um mikilvægi þess að stuðla ekki bara að því að draga úr áfengisneyslu í grunnskólum heldur líka í framhaldsskólum. Það er náttúrlega þannig að börn eru börn til 18 ára aldurs og það er mjög brýnt að draga líka úr neyslu áfengis í framhaldsskólum.

Ég held að það séu heilmiklir möguleikar, sérstaklega þar sem ÁTVR sem selur áfengi er í eigu ríkisins, í því að leggja aukna áherslu á það í stefnumörkun fyrirtækisins að vera með innlenda framleiðslu ef þess er kostur. Þar með getum við vonandi brugðist að einhverju leyti við atvinnuleysinu sem við höfum öll miklar áhyggjur af.

Það kemur fram líka í umsögn fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarpið að það hugsar sér að fært verði á milli liða til að tryggja að Neytendastofa geti sinnt þessu verkefni. Ég held að það sé ákaflega brýnt að fjárlaganefnd fari mjög vel yfir það við vinnslu fjárlagafrumvarpsins því að það stendur náttúrlega til að skera niður víða í stjórnsýslunni. Ef við felum stofnun ný verkefni — og ég veit til þess að þau verkefni sem hún hefur fengist við hafa reynst henni ærin, þær upplýsingar sem ég hef fengið frá starfsmönnum Neytendastofu eru að það sé mjög mikið að gera hjá þeim og þeir eigi í rauninni mjög erfitt með að sinna þeim verkefnum sem þeir eiga að sinna nú þegar — þá er mjög brýnt að fjármagn fylgi í samræmi við aukin verkefni.