140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[15:41]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það að við finnum marga þverstæðuna og mörg skringilegheit í lögunum eins og þau eru í dag. Ég get ekki séð að sú tillaga sem við erum að ræða hér breyti því. Ég held reyndar að hún auki einmitt á skringilegheitin og þverstæðurnar í þessu.

Hv. þingmaður saknaði þess að ég ræddi ekki um sterka drykki. Ég tók mjög skýrt fram að það væru takmarkanir á áfengislögum sem ég vildi ekki breyta. Það er verið að taka út lítið gat sem leyfir auglýsingar á léttbjór, (MÁ: Nei, …) á íslenskum léttum bjór. (MÁ: Nei, nei, …) Það sem við bendum á, við sem höfum efasemdir um þetta, er að það er einfaldlega verið að mismuna þeim sem framleiða þennan bjór hér á landi og þeim sem framleiða bjór erlendis en selja hann í stórum stíl hér á landi. Þeir geta auglýst eins og þeir hafa gert á meðan samkeppnisstaða þessarar atvinnugreinar er sett upp í loft.

Ég held að það sé reyndar bara stigsmunur á skoðunum okkar í þessu máli. Ég held að það sé samkomulag um að það þurfi að breyta þessu og hef ekki heyrt mikla umræðu um annað í þjóðfélaginu. Þær röksemdir að það megi leiða líkur að því að fólk telji verið að auglýsa sterkan bjór þegar er verið að auglýsa léttan bjór eru samt ekki nægileg rök að mínu mati.