140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[15:43]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Með fullri virðingu fyrir sjálfum mér og öðrum þátttakendum í umræðunni hefur hún verið hingað til nokkuð mikil mér-finnst-umræða, mér finnst þetta og þess vegna er það sem hinum finnst eitthvað verra o.s.frv. Úr því að hún er það ætla ég að segja hvað mér finnst í þessu.

Mér finnst að hv. þingmaður hafi fullkomið leyfi til að hafa sínar skoðanir. Mér finnst hins vegar ekki sniðugt að þingmaðurinn hafi þá skoðun að þetta eigi að vera eins og það er. Ég virði tillögu Sigurðar Kára Kristjánssonar — sem ég gjarnan vildi kalla háttvirtan en hann er ekki lengur á þingi og verður vonandi seinna — um að leyfa auglýsingar á vínanda undir ákveðnum prósentum. Ég spurði: Við hvað miðast prósentan? og fann alls konar galla á tillögu hans en hann vildi þetta. Hann vildi sem sé opna fyrir auglýsingar með einhverjum hætti á áfengi undir ákveðnum mörkum, á einhverri tegund áfengis. Það er virðingarvert sjónarmið.

Ég er hinnar skoðunarinnar, þeirrar skoðunar sem lögin kveða á um, að takmarkana sé þörf í núverandi ástandi miðað við þær aðstæður sem við búum við, miðað við þá hefð sem okkur hefur ekki tekist að breyta, miðað við þá menningu sem er allt of gott orð fyrir það sem viðgengist hefur í áfengismálum okkar frá því á 16. öld. Þetta er svo gamalt vandamál, forseti, svo rótgróið í íslensku samfélagi, og ég er sammála lagabókstafnum um að við eigum ekki í núverandi stöðu að leyfa auglýsingar á áfengi. Hér er ósköp einfaldlega verið að loka gati sem menn tróðu sér í gegnum með slíkar auglýsingar. Það var gert af tiltekinni ástæðu sem ég get farið í gegnum af því að ég man eftir henni. Þó að ég hafi ekki verið á þingi árið 1989 man ég eftir henni, vann reyndar í fjármálaráðuneytinu þá og man eftir þeirri umræðu sem þá fór fram. Það var verið að leyfa mönnum að kynna vörumerki sitt, það var þannig, það var verið að reyna að búa til þetta jafnræði.

Annaðhvort vilja menn leyfa auglýsingar á áfengi með einhverjum hætti eða menn vilja banna þær. Mér finnst að enginn geti í raun og veru sagt: Við viljum hafa þetta eins og það er. Ástandið núna er gjörsamlega út í hött, fáránlegt, það eru sem sé lög sem leyft er að brjóta. Það getur enginn alþingismaður leyft sér að verja hér í stólnum.