140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[15:59]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs fyrst og fremst til að þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mikilvæga mál. Það er mjög mikilvægt að það sé skýrt í hugum allra að við erum fyrst og fremst með þessum lagabreytingum að sjá til þess að markmiði þeirra laga sem Alþingi setti fyrir alllöngu, um bann við áfengisauglýsingum, verði fullnægt. Það verður eftir sem áður heimilt að auglýsa léttöl, áfengi undir 2,25%, það verður áfram heimilt. Hins vegar verður komið í veg fyrir það, með þessum lögum, að menn villi heimildir á vöru sinni, með því að hafa sterkt öl í sams konar umbúðum og léttölið, auglýsa síðan léttölið að forminu til en allir vita að í reynd er verið að auglýsa sterkan bjór.

Það eru miklir hagsmunir í húfi og miklar tilfinningar þar af leiðandi. Ýmsir hafa áhyggjur af því að þetta muni draga úr áfengisneyslu, það eru áhyggjur þeirra sem framleiða áfengi. Síðan eru það hinir sem einnig hafa hagsmuna að gæta og það eru fjölmiðlar sem þurfa að reiða sig á auglýsingatekjur. Þetta eru hagsmunir sem eru þarna í húfi og menn hafa áhyggjur af, en á móti eru einnig heilsufarshagsmunir og hamingjutengdir hagsmunir sem snúa að velferð þegnanna og kosta líka peninga. Þegar eitthvað fer úrskeiðis kostar það líka peninga, þegar heilsan brestur eða líf fólks gengur úr skorðum vegna óhóflegrar áfengisneyslu kostar það einstaklingana og samfélagið líka fjármuni.

Nú er mikilvægt að fá góða umræðu um þetta mál í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis og fá síðan afgreiðslu á þessu máli, vegna þess að eitt er kannski verst, það er að búa við löggjöf sem er ekki virt. Við erum með lög sem eru brotin, menn hafa fundið göt í þeim til að fara á bak við þau. Það er markmiðið með þessari lagabreytingu að stoppa upp í þau göt. Ef vilji Alþingis stendur til þess, meirihlutavilji Alþingis, að leyfa áfengisauglýsingar þarf sá vilji að ná fram að ganga, svo einfalt er það. Þá tökum við boltann upp frá þeim stað.

Ég er annarrar skoðunar og þess vegna legg ég þetta frumvarp fram en sams konar hugmynd hefur komið fram í þingmálum áður. Ég vitnaði til þess að þeir hv. þingmenn sem tekið hafa þátt í þessari umræðu, Þuríður Backman og Mörður Árnason, hafa margoft staðið með mér að tillögum í þeim anda sem hér eru kynntar.