140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

19. mál
[16:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum komin í allflókna umræðu, en eins og ég hef skilið málin og eins og mig rekur best minni til snýst málið um að Landhelgisgæslan og þeir sem sinna þyrlunum sérstaklega þurfa að geta brugðist við útkalli með skömmum fyrirvara og þeir þurfa þar af leiðandi að búa innan tiltekins radíuss við þyrlurnar. Ef þeir búa utan þess radíuss þurfa þeir að vera á vakt á svæðinu. Annars geta þeir verið á bakvakt. Það eru vaktagreiðslurnar sem eru dýrastar. Á sama hátt eru skurðstofur dýrari í rekstri vegna bakvakta en ekki vegna þess að skurðstofan sem slík kalli á mikinn rekstrarkostnað. Þegar þær eru reknar allan sólarhringinn og fólk þarf alltaf að vera í viðbragðsstöðu hleðst kostnaðurinn upp. Það sama gildir um þyrlurnar. Það er spurning um viðbragðsflýti þeirra sem sinna útköllum og þurfa að geta gert það með mjög skömmum fyrirvara. Þar liggur kostnaðurinn.

Ef við værum búin að vera með Landhelgisgæsluna í langan tíma í Keflavík og þyrluflugmennirnir byggju þar yrði tilkostnaðurinn við vaktakerfið allt annar. Það er að finna í kjarasamningum og verður ekki auðveldlega valtað yfir og á að sjálfsögðu ekki að gera það. Það er það sem var áhersluatriðið í úttektinni sem gerð var. Þá var spurt: Hvað kostar að flytja Landhelgisgæsluna? Þá voru menn að máta það inn í hugsunina um atvinnuúrræði á Suðurnesjum til skamms tíma en horfðu ekki á málið til langs tíma. (Forseti hringir.) Ef við gerum það, sem ég tel æskilegt, getum við farið að komast að annarri niðurstöðu.