140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

19. mál
[16:52]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil í fyrsta lagi koma á framfæri leiðréttingu við mál hv. þingmanns þegar hann fór að blanda í málið vilja mínum um hvað gerðist á Reykjavíkurflugvelli. Ég þakka fyrir að svo mikið mark sé tekið á viðhorfum mínum um það mál, en það sem ég átti við er að í skipulagi Reykjavíkurborgar liggur fyrir ákvörðun um að fækkað verði um eina flugbraut á vellinum árið 2016 og síðan aðra árið 2024. Hvað verður vitum við ekki. Mér finnst líklegt að ákvörðunin standi a.m.k. til 2016, en hvort flugvöllurinn fer 2024 eða síðar eða fyrr veit ég ekki.

Vilji minn kemur ekki við sögu í því máli sem ég talaði um sem var að ég tel að það komi mjög vel til álita að skoða flutning flugflotans og flugaðstöðunnar frá Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkurflugvallar. Það byggi ég (Gripið fram í.) m.a. á þeirri aðstöðu sem til staðar er á Reykjavíkurflugvelli og er ekki til langframa, hvað sem flutningi flugvallarins líður.

Ég fagna því svo í lokin að þessi umræða sem hófst — hver sem nú hóf hana, það er auðvitað hefðbundið rifrildi hér hver byrjaði — út frá atvinnuástandinu á Útnesjum, svo ég taki það orð mér í munn sem er ekki skemmtilegt, sé komin í annan farveg. Ég skal stuðla að því sem nefndarmaður í hinni ágætu umhverfis- og samgöngunefnd sem málið fer væntanlega til, að skoðað verði til langframa hvernig stofnunin á að starfa í framtíðinni. En ég legg áherslu á að mér þykir sjálfsagt að miðstöð stjórnsýslu Landhelgisgæslunnar sé þar sem stjórnsýslumiðstöð Íslendinga er, í Reykjavík.

Ég spyr enn: (Forseti hringir.) Þeir sem ætluðu að gera þetta í snatri til að bæta atvinnuástandið á Suðurnesjum, hvaða ábyrgð sýna þeir á því starfi sem farið hefur fram í Björgunarmiðstöðinni við Skógarhlíð (Forseti hringir.) og er vel heppnað að allra dómi?