140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

19. mál
[17:00]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegur forseti. Þúsundir Suðurnesjamanna hafa á löngu árabili sótt atvinnu inn á höfuðborgarsvæðið alveg eins og mikill fjöldi fólks úr Reykjavík og nærliggjandi sveitarfélögum hefur sótt vinnu til Keflavíkur. Það er einföld staðreynd.

Þegar rætt er um flutning Landhelgisgæslunnar á Suðurnes hljóta menn að spyrja númer eitt, tvö og þrjú: Hvernig er aðstaðan, batnar hún? Er kostnaðarauki eða sparnaður? Mundi flutningurinn í mörgu raska starfsemi Gæslunnar vegna lögheimilis starfsmanna?

Það er engin spurning að bæði til skemmri og lengri tíma er hagstæðara að staðsetja Gæsluna á Suðurnesjum. Þar er hún í góðu rými bæði við sjóinn og í landi. Nú er hún að mörgu leyti við þröngar aðstæður og þær þrengjast sífellt meira og meira í Reykjavíkurhöfn.

Þegar lokið verður við að tvöfalda alla Reykjanesbrautina í gegnum Hafnarfjörð og það svæði tekur ekki lengri tíma að keyra á eðlilegum hraða frá Kópavogi til Reykjanesbæjar, til Keflavíkurflugvallar en 25–26 mínútur innan allra eðlilegra marka. Þegar talað er um að það væri einfaldara og eðlilegra að Gæslan væri suður með sjó frekar en hér í Reykjavík vegna flugmannanna er það auðvitað ekki nein raunhæf viðmiðun. Það er þannig, hæstv. innanríkisráðherra, að starfsmenn Gæslunnar eru um 250, rokka svolítið á milli 250 til 260. Þar af eru þeir sem sinna flugþættinum um það bil 50. Fimmtungur starfsmanna Gæslunnar er tengdur flugrekstri. Alveg eins og höfuðborgarbúar hafa lengi sótt vinnu suður á Reykjanes og gagnkvæmt þá breytir það engu um hvar á að velja þessu mannvirki stað eða staðsetningu í framtíðinni, finnst mér. Það eru einfaldlega fyrst og fremst þessir þættir, þ.e. rýmið, aðstaðan og aðgengið, og þar hafa Suðurnesin forskot í öllum þáttum. Þess vegna eru fullkomin rök fyrir því að færa þessa starfsemi út úr ramma höfuðborgarinnar nánast í næsta bæjarfélag. Þetta skiptir miklu máli.

Ég vil taka undir öll þau atriði sem hv. 1. flutningsmaður þessa máls kynnti í ræðu sinni, en svo rekur mann í rogastans þegar til að mynda menn eins og hv. þm. Mörður Árnason koma og tilkynna að önnur flugbrautin á Reykjavíkurflugvelli verði farin 2016. Hv. þingmaður er ekki þekktur fyrir gamansemi í orði eða útliti en það er náttúrlega sorglegt að hlusta á svona hjá manni sem á að vera þokkalega vel að sér í mörgu. Það gengur á Akureyri, virðulegi forseti, að hafa eina flugbraut vegna þess að flugbrautin er í dal, hún er í firði. Það gengur ekki að hafa eina flugbraut á Reykjavíkurflugvelli og það vita allir sem setja sig inn í þetta, jafnvel indæliskrakkar í stöfunardeild, en Mörður Árnason ber höfðinu við steininn og segir: Önnur brautin er farin. Þar með er frávikið á Reykjavíkurflugvelli orðið slíkt að hann er ekki brúklegur sem innanlandsflugvöllur. Þetta skiptir engu máli fyrir mann sem hugsar bara innan þröngs ramma Reykjavíkur og sér Vatnsmýrina fyrir sér sem kaffihúsabyggð fyrir gáfaða fólkið. Þetta er einföld staðreynd, virðulegi forseti. Ég held að menn verði að taka viljann fyrir verkið og átta sig á því að þarna er byggt á vanþekkingu.

Það er úrelt snobb að hampa Reykjavík sem einhverjum heilögum stað í samfélaginu á Íslandi. Þegar menn tala um þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað í Skógarhlíð, sem er vissulega góð og vel útfærð, þá er mjög lítið mál að flytja starfsemina án þess að tengslin og samstarfið rofni á nokkurn hátt. Ætli það þurfi ekki að flytja nokkra tölvuskjái? Að öðru leyti er þetta mjög tæknivædd stöð. Það er líka sjónarmið hvort skynsamlegt sé að hafa þarna í þessum öryggisþáttum öll eggin í sömu körfunni. Það gætu komið upp atvik sem við reiknuðum varla með eins og skemmdarverk og ýmislegt sem mundu trufla stöðina. Það er að mínu mati mjög langsótt en það er engu að síður ástæða til að hafa það í huga.

Landhelgisgæsla Íslands er í rauninni núna á þeim tímum sem við erum að baksa hér stolt Íslands. Hún er hlekkurinn sem stendur fremst í röðinni fyrir sjálfstæði Íslands. Tilkoma nýja varðskipsins Þórs undirstrikar þetta og sýnir hvað Landhelgisgæsla Íslands er mikils virði. Hún er sverð okkar og skjöldur. Á óvissutímum og óvæntum tímum er hún það. Það skip sem nú er komið til landsins er glæsilegt framtak, metnaðarfullt og í þeim dúr að því fer vel að vera tákn Íslands.

Virðulegi forseti. Þegar maður talar um tákn Íslands og sjálfstæði þess skiptir Alþingi máli, Bessastaðir skipta máli, Háskóli Íslands skiptir máli, margar stofnanir skipta máli í þessum efnum því að um er að ræða hljóðfæri, marga hljóma sem þurfa að hljóma saman. Maður dregur ekki eitt út fyrir annað. Til að mynda í íþróttum, skák og öðrum íþróttum þar sem Íslendingar standa framarlega, á heimsmælikvarða, er vottur um sjálfstæði Íslands. Það markar þjóðarsálina, viðhorf fólks, gleður það og styrkir og er þannig bætandi.

Kostnaðarskýrslan sem lögð var fram var illa unnin varðandi flutning til Keflavíkur á Keflavíkurflugvöll. Hún var laus í reipunum, menn völdu það neikvæða, slepptu því jákvæðu af því að þeir sem unnu skýrsluna voru undir þeirri pressu að vilja ekki flytja stofnunina úr Reykjavík. Allt þetta þurfum við að horfa á, virðulegi forseti, og tryggja (Forseti hringir.) að menn geri þetta á skynsamlegan hátt með því að hugsa til framtíðar og til lengri tíma er öll aðstaða best á Reykjanesi.