140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

vinnuhópur um vöruflutninga.

71. mál
[18:34]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað erfitt að stilla hlutum upp þannig að menn sitji í öllu við sama borð þó að það hljóti að vera markmið. En vöruflutningar frá höfuðborginni, þar sem megnið af vörum til landsins kemur fyrst á land, um þjóðvegakerfið eru dýrir sem þýðir að vörur, nytjavörur og nánast hvaða vörur sem eru kosta talsvert minna í Reykjavík vegna þess að það kostar meira að fara rúntinn en að fara hann ekki.

Þessi tillaga til þingsályktunar miðar að því að fela innanríkisráðherra að skipa vinnuhóp til þess að gera ítarlega úttekt á vöruflutningum hérlendis, þar á meðal á hagkvæmni þess að auka vöruflutninga á sjó.

Það er brýnt að gera nú þegar ítarlega úttekt á mögulegum úrbótum í vöruflutningum á Íslandi, bæði á sjó og landi. Álag á vegakerfi landsins hefur aukist mjög á undanförnum árum með umfangsmiklum vöruflutningum stórra flutningabíla. Að mörgu leyti eru íslensku þjóðvegirnir varla til þess gerðir að mæta slíkum flutningum auk þess sem flutningarnir krefjast mikillar varkárni af hálfu bílstjóra í tengslum við umferð venjulegra fólksbíla. Vöruflutningar á landi hafa reynst hagkvæmir fyrir þjónustu við landsbyggðina, en sjálfsagt er að kanna alla möguleika til hlítar. Kanna þarf hagkvæmnina út frá tíðni ferða, þörfinni, kostnaði og öðrum þáttum. Einn vöruflutningabíll, virðulegi forseti, slítur vegakerfinu 20–30 þúsund sinnum meira en venjulegur fólksbíll þannig að margs er að gæta og til margs er að vinna að skoða þessa möguleika til hlítar. Ekki slíta skipin hafinu en á móti kemur oft erfið barátta við náttúruöflin.

Mikilvægt er að gera úttekt á vöruflutningum í samvinnu við hagsmunaaðila í flutningum á sjó og landi, sveitarfélög, sérfræðinga og embættismenn. Venjulega hefur þetta verið unnið án þess að haft sé samband og samstarf við hagsmunaaðila en þeir hafa reynsluna, þeir hafa verksvitið og þess vegna er mikilvægt að menn beri saman bækur með það að markmiði að bjóða upp á hagkvæmustu kosti sem völ er á. Vöruflutningar á landi eiga vart samleið með venjulegum fólksbílum á fjölmörgum leiðum um vegakerfi landsins og að því ber einnig að hyggja.