140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Á sama tíma og forustumenn ríkisstjórnarinnar tala um að botninum sé náð og að góður árangur sé af störfum hennar heyrum við af fjölda uppsagna í atvinnulífi um allt land. Sérstaklega á það við um verktakageirann sem óhætt er að segja að sé nú í dauðateygjunum.

Vinnumálastofnun er í umboði ríkisstjórnarinnar með kynningarfund í Ráðhúsi Reykjavíkur í samvinnu við erlendar atvinnumiðlanir. Skilaboðin til almennings eru skýr: Komið ykkur úr landi, hér mun ekkert gerast. Árangurinn lætur ekki á sér standa við þessi skilaboð, á hverjum degi flytja um fimm manns burtu af landinu.

200 manna landsfundur VG um helgina þar sem 130 manns kusu sér nýjan formann staðfestir áframhaldandi stöðnun. Áfram er boðuð óvissa í sjávarútvegi þannig að tugmilljarðafjárfestingar, hátt á sjötta tug milljarða á næstu tveimur árum, munu enn fá að bíða síns tíma. Öllum málamiðlunum um rammaáætlun er hafnað af Vinstri grænum. Bráðnauðsynlegar ákvarðanir um frekari framkvæmdir samkvæmt framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar munu ekki sjá dagsins ljós á næstunni. Uppi eru miklar efasemdir um að vinnu við rammaáætlunin ljúki yfirleitt á þessu þingi.

Það er ekki hægt að skilja niðurstöðu Vinstri grænna með öðrum hætti en að viðræðuferli um aðild að Evrópusambandinu sé í uppnámi og öllum má vera ljóst að því lýkur ekki í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi. Það er milljarðakostnaður sem fer í súginn í hverjum mánuði.

Við höfum nýtt fjárlagafrumvarp í höndunum þar sem forsendur eru allar brostnar. Þar er gert ráð fyrir 3,1% hagvexti. ASÍ gerir í nýlegri hagspá sinni ráð fyrir 1% hagvexti og Seðlabankinn rúmum 2%.

Virðulegi forseti. Ábyrgð okkar þingmanna er mikil og allt of einfalt að skella allri skuldinni á forustumenn ríkisstjórnarflokkanna. Ábyrgð þeirra þingmanna sem standa vörð um þetta ástand er ekki minni. Öll stór mál (Forseti hringir.) þessarar ríkisstjórnar eru í uppnámi með tilheyrandi afleiðingum. Þetta getur ekki gengið svona lengur, virðulegi forseti.