140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það er ráðlegt að hraða aðlögunarferlinu að Evrópusambandinu en það er annað mál.

Ég var á góðum fundi í velferðarnefnd í morgun þar sem til umræðu var skýrsla eftirlitsnefndar um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Þetta er skýrsla sem kom út nú fyrr í haust, í september, og er um margt ágæt. Það sem vekur hins vegar athygli mína er hversu litla umfjöllun hún hefur fengið í fjölmiðlum, sérstaklega þegar maður les hana því að þá kemur fram að í henni felst mikil gagnrýni á þær tillögur og úrbætur sem stjórnvöld hafa lagt til fyrir skuldug heimili.

Þar segir nefndin t.d. varðandi 110% úrræðið að hún telji að það hafi verið útfært of þröngt í samkomulaginu frá 15. janúar 2010, það hefði mátt vera einfaldara og fljótlegra í framkvæmd, með öðrum orðum hefði það ekki alveg náð því markmiði sem að var stefnt. Svo bendir nefndin líka á að lántakar með lánsfé hjá þriðja aðila fá minni skuldaniðurfellingar en þeir sem voru með 80–100% lán hjá bönkunum. Þetta bendir til að bankarnir hafi ekki samræmda framkvæmd sín á milli og fólk eigi afar erfitt með að átta sig á því hvaða úrræði standa til boða hjá hverjum banka.

Síðan er líka gagnrýnd hin svokallaða sértæka skuldaaðlögun en þar segir á bls. 9 að úrræðið sé í hálfgerðum skammarkrók hjá fjármálafyrirtækjum.

Nú hefur ríkisstjórnin bent á bankana en ég held að við sem erum á Alþingi eigum að beita okkur fyrir því að sett verði lög sem einfalda framkvæmdina og gera hana skýrari. (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja hv. varaformann velferðarnefndar sem stýrði fundinum ágætlega í morgun hvort hún (Forseti hringir.) sé ekki reiðubúin til að beita sér fyrir slíkri lagasetningu (Forseti hringir.) og hvort við gerum nokkuð fleiri samkomulög við bankana.