140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Á umtöluðum landsfundi VG um helgina var talið mjög mikilvægt að ekkert færi á milli mála í afstöðu flokksins til heilbrigðismála. Þess vegna var ekki samþykkt ein ályktun um heilbrigðismál heldur tvær.

Í gærmorgun lýsti flutningsmaður tillögunnar, landsfundarfulltrúi úr Skagafirði, því yfir að tillagan væri um það að draga til baka niðurskurðaráform í fjárlagafrumvarpinu eins og þau birtast. Í orðaskiptum okkar hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, þingflokksformanns VG, í gær kom hins vegar fram sá skilningur hans að ekki væri um að ræða ákall um það að hverfa frá niðurskurðaráformunum á næsta ári heldur láta gott heita eftir það ár. Sama sjónarmið hafði uppi hæstv. fjármálaráðherra, formaður VG. Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir skilur þetta með allt öðrum hætti og telur einfaldlega að ályktað hafi verið gegn frekari niðurskurði, gegn þeim niðurskurðaráformum sem birtust í fjárlagafrumvarpinu.

Virðulegi forseti. Nú er okkur nokkur vandi á höndum. Hvað þýða þessar ályktanir? Þetta er í fyrsta skipti sem mig rekur a.m.k. minni til þess að það þurfi að kalla á sérstaka túlkaþjónustu til að skilja ályktanir stjórnmálaflokks. Ég spyr: Er ekki starfandi í utanríkisráðuneytinu sérstök þýðingarmiðstöð? Væri ekki ráð að vísa báðum þessum ályktunum til Þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytisins þannig að við hin gætum farið að skilja hvað um væri að ræða? Við þurfum auðvitað að fá úr því skorið hvort sú ályktun sem var samþykkt núna um helgina hafi verið sérstakt ákall og hrein stuðningsyfirlýsing við áform ríkisstjórnarinnar um stórfelldan niðurskurð t.d. í heilbrigðisstofnunum úti á landi sem fela í sér stórfelldar uppsagnir starfsfólks. Er það svo að samþykkt hafi verið á landsfundi VG sérstök stuðningsyfirlýsing (Forseti hringir.) við áform ríkisstjórnarinnar um niðurskurð í heilbrigðismálum eða ekki? Þetta verður einhver að (Forseti hringir.) túlka. Það er greinilega meira að segja bullandi ágreiningur um hvernig eigi að skilja orð vinstri grænna. Við vitum um allan hinn ágreininginn en nú eru þeir hættir að skilja hver annan þó að þeir tali allir íslensku.