140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Í morgun birti Seðlabankinn lykiltölur úr hagfræðinni, þjóðhagsskútuhagfræðinni. Þar kemur fram að hagvöxtur á þessu ári er meiri en spáð var og hagvöxtur á næsta ári verður meiri en spáð var. Það má með sanni segja að við Íslendingar séum að gera vel. Hér er hagvöxtur um það bil tvöfalt meiri en hann er að jafnaði í OECD og ég get jafnvel fullyrt það í þessum sal að hagvaxtarspá fyrir næsta ár er 40% hærri en hún var áður. (Gripið fram í.) Verðbólguspáin er sömuleiðis betri (Gripið fram í.) hjá Seðlabankanum. Ég heyri að þessar upplýsingar fara frekar illa í þingheim, virðulegi forseti, en ég ætla að halda áfram ræðu minni. Verðbólguspá næsta árs er betri en menn töldu áður. Atvinnuleysi á Íslandi er mun minna en í samanburðarlöndunum. Hér er næstlægsta hlutfall atvinnuleysis á Norðurlöndunum. (Gripið fram í.) Fjölmörg jákvæð teikn eru á lofti, virðulegi forseti. Við erum búin með það versta og nú eigum við í þessum sal að sameinast um að fara að tala um framtíðina. (Gripið fram í.) Við eigum að tala um lausnir á þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir og fara að byggja hér upp. (Gripið fram í.) Við getum gert það t.d. í atvinnulífinu og þar vil ég taka undir með fjölmörgum þingmönnum sem hafa talað um mikilvægi þess að klára rammann því að ég held að það sé mikilvægt bæði fyrir þá sem vilja vernda og fyrir þá sem vilja virkja að við ljúkum skipulaginu á því hvernig við ætlum að byggja upp í orkugeiranum. (Gripið fram í.)

Við í þessum sal ættum að hætta að vera með þessa bölsýni endalaust og draga þannig máttinn úr þjóðinni. Nú eigum við að tala í lausnum, við eigum að vera jákvæðari gagnvart okkur sjálfum og þeim verkefnum sem eru fram undan vegna þess að lykiltölur á blaði sýna að við erum búin með það versta, það er bjart fram undan. Við eigum ekki að tala bölsýni í þjóðina, við eigum að tala kraft í hana. Takk. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) [Kliður í þingsal.]