140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

38. mál
[15:48]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Mig langaði að taka aðeins til máls og þakka 1. flutningsmanni fyrir góða yfirferð og góða vinnu í þessu máli. Þetta styð ég.

Síðustu tvo vetur átti ég sæti í menntamálanefnd og þær kvartanir sem mest komu til mín sem þingmanns voru vegna ýmissa mála hjá LÍN. Það er mikill ósveigjanleiki í kerfinu, þetta er ríkisfé og um það gilda ákveðnar reglur þannig að það er mjög erfitt fyrir stofnunina að gefa eitthvað eftir. Þess vegna held ég að við þurfum hreinlega að breyta lögunum. Reyndar kemur mjög á óvart hve margt eldra fólk skuldar hjá LÍN og hvað fjárhæðirnar eru háar, en eins og kom fram í máli 1. flutningsmanns eru 112 skuldarar yfir 66 ára aldri, sem eru sem sagt að fara á eftirlaun, og skulduðu í heildina 343 milljónir. Það eru 3 milljónir á mann. Að sjálfsögðu spilar verðtryggingin þarna inn í.

Ég get sagt það með mín námslán sem ég tók í fyrndinni að þau standa enn þá í nákvæmlega sömu upphæð og þegar ég hætti í námi þótt þau hafi aldrei verið í vanskilum og alltaf verið borgað af þeim. Þetta er mjög dularfullt lán, það hvorki hækkar né lækkar, er bara alltaf í sömu tölu.

Ég tel þetta mjög brýnt mál og styð það heils hugar.