140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

ljóðakennsla og skólasöngur.

75. mál
[16:10]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Það er alltaf gaman að heyra talað um ljóð en mig langaði að spyrja hv. þingmann af því að hann ræðir um ljóð og tónlist samtvinnað: Er þessu hlutverki ekki í raun og veru sinnt nú þegar í tónmennt í skólum landsins þar sem börn syngja ljóð í þessum tímum?

Mig langaði að taka undir með hv. þingmanni varðandi Halldór Laxness og ljóðagerð hans. Ég hef oft sagt að mér finnist ljóðin hans margfalt betri en bækurnar þó að bækurnar séu margar góðar, enda var hann algjör snillingur í ljóðagerð sem fæstir þekkja til, því miður, nema kannski eitt.

Ég hef eina spurningu í viðbót. Ég hjó eftir því að hann sagði að margt væri kennt sem fánýtt væri í skólum nútímans og mig langaði að spyrja hvað hann ætti við með því, hvað væri fánýtt. Ég verð að segja persónulega, og ég var nú alin upp við mikinn ljóðasöng, að það sem nærri því drap áhuga minn á ljóðum var einmitt ljóðakennslan í grunnskóla úr bláu bókinni. Ég vona að hv. þingmaður sé ekki að mælast til þess að við förum út í slíkan hrylling eins og ég upplifði í bernsku minni.