140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

ljóðakennsla og skólasöngur.

75. mál
[16:23]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum áhugaverða þingsályktunartillögu um ljóðakennslu og skólasöng. Mér er málið skylt sem íslenkukennari til margra ára í efri bekkjum grunnskóla og mig langar því til að leggja hér orð í belg. Ég tek undir að afar mikilvægt er að kynna börnum og unglingum ljóð. Ég tek líka undir það sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir sagði áðan, það er ekki sama hvernig það er gert.

Hins vegar er það mín reynsla að nemendur almennt hafa áhuga á að lesa ljóð, þeir hafa áhuga á að velta fyrir sér myndmáli ljóða. Þeir hafa áhuga á að túlka ljóð og þeir hafa áhuga á að syngja. En þeir hafa engan sérstakan áhuga á að læra utan bókar en það skiptir heldur ekki meginmáli vegna þess að áhuginn á því að lesa ljóðið, kryfja það, hugsanlega syngja það, kveikir síðan þann áhuga að muna textann. Þess vegna held ég að það skipti meginmáli að nálgast verkefnið með þeim hætti en ekki að byrja á því að ætla fólki að læra utan bókar eitthvað sem það hugsanlega ekki skilur.

Það er hins vegar ótrúlega einfalt að segja að auðvelt sé að læra utan bókar en það er ekki öllum gefið. Hins vegar er hægt að efla læsi nemenda af því að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson minntist á sérstaka skýrslu þar sem komið hefur í ljós að drengir á 15. ári geta ekki lesið sér til gagns. Ég er hins vegar nokkuð viss um að fengju þeir drengir að kryfja texta ágæts tónlistarmanns, Bubba Morthens, og fara í gegnum slíka texta til að læra að lesa sér til gagns yrði staðan önnur, vegna þess að oftar en ekki er meginverkefni kennarans að finna tæki og tól fyrir þann sem á að fást við verkefnið. Ég þekki það af eigin raun að textar Bubba Morthens frá því hann kom fyrst fram — hann er sjálfsagt sá íslenski tónlistarmaður sem oftast, ef ekki alltaf, hefur sungið ljóð sín á íslensku — voru oftar en ekki verulegur fengur fyrir mig sem íslenskukennara fyrir nemendur mína sem höfðu ekki mikinn áhuga á ljóðalestri til að byrja með.

Annað skulum við hafa í huga þegar við hugsum um ljóð og þegar við hugsum um söng, það eru hin nýju vísindi sem segja okkur að ljóðasöngur og söngur fyrir fólk sem þjáist af alzheimer gefur þeim gull í mund, ef svo mætti að orði komast, í það minnsta góða stund. Það hefur sýnt sig í því verkefni sem ágætir tónlistarmenn hafa tekið að sér, að heimsækja slíka sjúklinga og syngja fyrir þá að þá rifjast upp texti sem löngu var gleymdur og fólk syngur með. Það er því líka mannbætandi á seinni stigum ævinnar að hafa lært einhvern texta og þekkja einhver ljóð.

Ég fagna því tillögu hv. þingmanns. Ég sit í allsherjar- og menntamálanefnd og mun væntanlega fá tillöguna til skoðunar þar og mun veita henni í það minnsta mitt brautargengi.

Mig langar líka að nefna, af því að ágætur hv. þm. Árni Johnsen sagði að ljóðið hefði kjól og að kjóllinn væri þá aðsniðinn ljóðinu. Það skiptir líka máli og í flestum skólum að ég held er söngur ástundaður með einum eða öðrum hætti, jafnt í tónmennt sem og í kórum innan skóla. En við skulum ekki gleyma að það fyrsta sem börnin okkar og barnabörnin læra í leikskólum er að læra að syngja. Þannig læra þau texta og ljóð, hægt og sígandi skynja þau ekki bara hljómburðinn og hljómfallið heldur skynja þau líka hljómfall orðanna, læra að ríma og fara að leika sér með tungumálið á þann hátt. Það mætti því verulega setja þessa tillögu á stig leikskólans til frekari eflingar þó svo að leikskólinn sé ekki lögbundið skólastig enn.

Ég fagna tillögunni og ítreka það sem ég sagði áðan að ég mun innan allsherjar- og menntamálanefndar veita henni mitt brautargengi.