140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

stofnun íslenskrar handverksdeildar í Listaháskóla Íslands.

78. mál
[17:14]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Tillagan um stofnun íslenskrar handverksdeildar í Listaháskóla Íslands er til þess gerð að virkja og nýta þá þekkingu sem býr í fólki í öllum landshlutum á Íslandi til sjávar og sveita, þekkingu á handverki, hvort sem það er í prjónlesi, útskurði í tré, bein, járnsmíði eða öðrum þáttum, málverki, teikningu og útfærslu á fatnaði og ótal hlutum sem þetta fólk okkar víða um land skilar bæði til árangurs og styrkari stöðu til atvinnusköpunar. Allt hjálpast þetta að og þess vegna er mikilvægt að nú verði gengið í að setja upp handverksdeild við Listaháskóla Íslands.

Í ýmsum skólum er kennt föndur, handavinna, smíði og grunnlínur sem nýtast í þessu handverki, en við þurfum að hefja þetta enn hærra, gera því hátt undir höfði, því að margir handverksmenn landsins eru listamenn af guðs náð. Það eigum við að rækta og nýta, og sýna þessu handverki virðingu. Til að mynda er íslenska peysan, sem konur landsins eru heimsfrægar fyrir, listaverk og þar að auki er hún eins og hús fyrir hvern þann sem á góða peysu. Þannig fer saman hagnýtt gildi og fagurfræðilegt. Við eigum að lyfta þessum greinum upp, vera hvetjandi en ekki letjandi, koma þeim fram, gefa fólki sem hefur þessa hæfileika eða vill rækta þá færi á að stofna til meiri reynslu, þekkingar, meðferðar á efni o.s.frv. til að þarna verði gild og gullin vara.