140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

fuglaskoðunarstöð í Garði.

79. mál
[17:17]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Tillagan sem hér um ræðir gengur út á það að komið verði upp fuglaskoðunarstöð í Garði á Suðurnesjum. Í Garðinum eru kjöraðstæður, ekki síst til að skoða sjófugla, en einnig eru þar um kring mófuglar sem eykur aðeins flóruna í þessu verkefni.

Fuglaskoðun er almennt áhugamál víða um land hjá fólki á öllum aldri. Óvíða er eins gott að skoða fugla og einmitt á þessu svæði, við Garðskagavita, við veitingastofuna Flösina. Ekki er síðri möguleikinn á fuglaskoðun við síkin hjá íþróttahúsinu í Garði, Útskálasíki, Miðhúsasíki og Gerðasíki.

Þingsályktunartillagan miðast við það að mennta- og menningarmálaráðherra kanni samráð og samstarf við sveitarfélagið Garð um aðstöðu fyrir fuglaskoðara í fuglaskoðunarstöð. Þetta er eitt af þessum verkefnum sem eru hérna megin við lækinn, kosta lítið, en eru mjög gefandi og skapandi og auðga andann og efla, auk þess sem þarna er um útivist að ræða og því mikilvægt að rækta þetta upp og hjálpa því áfram.

Fuglalífið á þessu svæði er mjög fjölbreytt og aðstæður þannig að fuglaskoðarar eru mjög nálægt vettvangi fuglanna. Á þessu svæði hafa til dæmis verið settar upp myndavélar sem fylgjast með ferðum blesgæsarinnar á hefðbundnum ferðum hennar til norðurs og suðurs.

Ástæða er til að hvetja fólk á öllum aldri til að njóta stórkostlegrar náttúru Íslands og þar er fuglaskoðun einn spennandi þátta. Stjórnvöld landsins og sveitarfélög geta á margan hátt haft samvinnu um slíkt starf og víða er aðstaða sem mætti laga að slíkri fuglaskoðunarstöð þar sem fyrir væru aðgengilegar upplýsingar um fugla og nálægð við náttúru landsins.