140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

gerð lista- og náttúrugarðs fyrir blinda og aðra skynhefta.

83. mál
[17:20]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Tillagan sem um er að ræða fjallar um gerð lista- og náttúrugarðs fyrir blinda og aðra skynhefta. Þetta kynni við fyrstu sýn að vera langsótt verkefni, en þegar að er gáð er þetta hugmynd sem mundi skapa ný tækifæri, ekki bara fyrir blinda og hreyfihamlaða heldur líka fyrir ferðamenn til Íslands frá öðrum löndum. Hvergi í heiminum er til slíkur garður.

Ef færustu listamenn væru fengnir til að gera 40 höggmyndir sem væru þannig úr garði gerðar að þær væru jafnt fyrir sjónskerta sem sjáandi. Sá sjónskerti notar hreyfiskynjunina, snertiskynjunina, hönd sína, til að þreifa á höggmyndinni og skynjar listaverkið á þann veg. Aðrir mundu nota hefðbundnari aðferðir og nota augun sín. Þannig er hægt að gera margs konar hluti. Hægt er að skapa í svona garði titring sem er eftirmynd jarðskjálfta. Hægt er að skapa rennandi vatn, heitt og kalt, þar sem menn skynja það. Lítill fjallalækur, kaldur og svalandi, gæti runnið um berg sett upp í slíkum garði og þá skynjuðu menn þessa hluti í náttúrunni fyrstu hendi. Þetta er skemmtilegt verkefni og hægt er að byggja það upp hægt og sígandi. Þegar kominn væri glæsilegur garður fyrir blinda og aðra skynhefta er engin spurning að það gæti þýtt mörg þúsund ferðamenn til Íslands frá öðrum löndum til að skoða þennan sérstæða skemmtigarð, listagarð, þann sérstæðasta í heiminum og þann eina á þessum vettvangi.

Tillagan byggist á því að þetta sé skoðað og jafnvel að leitað verði samráðs við sveitarfélög um að koma þessu fram. Þessi hugmynd er meðal annars byggð á hugmynd frá Kristjáni Vídalín skrúðgarðameistara og hún byggist á því að notaður sé gróður, vatn, vindur, ljós og alls konar form og höggmyndir eins og ég gat um fyrr. Þetta getur verið fjölbreytt og er einfaldlega spennandi að bæta því í flóruna sem ferðamenn sem hafa skerta möguleika í sjón og hreyfingum mundu ugglaust njóta frekar en aðrir.