140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

Íslandssögukennsla í framhaldsskólum.

89. mál
[17:39]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að horfast í augu við þróun og stöðu nútímans á leið til framtíðar. Við þurfum að rækta margt með okkar þjóð og ekki síst Íslandssögukennslu í framhaldsskólum. Íslendingar eiga undir högg að sækja í aukinni samkeppni á alþjóðavettvangi sem sjálfstæð þjóð og hvað varðar menningarlega, atvinnulega og markaðslega ímynd Íslands þarf að hnykkja þar á. Sögukennsla í framhaldsskólum var skorin niður við trog við gerð síðustu námskrár og nánast þurrkuð út á sumum námsbrautum. Áföngum var slegið saman. Þannig er mannkynssaga og Íslandssaga frá upphafi fram til 1800 kennd í einum sex eininga áfanga sem Íslands- og mannkynssaga. Þetta er óvirðing við Íslandssöguna. Ef bæta á söguþekkingu ungs fólks þarf að auka vægi sögukennslu á öllum námsbrautum, fjölga kjarnaáföngum í sögu, skipta sögunni meira niður en nú er gert og auka val. Einnig þarf að útbúa fjölbreyttara námsefni, heimildasöfn er henta skólum og myndefni úr sögunni er fellur vel að lengd kennslustunda. Þetta er mikið efni, myndrænt og magnað. Mikill skortur er á slíku kennsluefni, sérstaklega um Ísland. Þeim fer fjölgandi dæmunum í útvarpi, sjónvarpi og ekki síst á samskiptasíðum á netinu þar sem afhjúpast miklar gloppur í sögukunnáttu ungs fólks á Íslandi. Er þar um að ræða beina vanþekkingu á atriðum og þáttum sem ættu að eiga fastan bústað í brjósti hvers Íslendings.