140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

grunnskólar.

156. mál
[17:41]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 91/2008, um grunnskóla. Þetta frumvarp er nú endurflutt. Það var lagt fram á 139. löggjafarþingi, en þá var það ekki útrætt og er þess vegna lagt fram að nýju.

Meginbreytingin sem þetta frumvarp felur í sér er að opna á heimild til hagræðingar fyrir sveitarfélög, sem reka grunnskólana eins og allir vita, með því að stytta vikulegan kennslutíma, mismikið þó eftir aldursstigum. Lagt er til að hámarksstytting vikulegs kennslutíma nemenda í 8.–10. bekk verði 200 mínútur, þ.e. 14% skerðing, 160 mínútur fyrir 5.–7. bekk, þ.e. 11% skerðing, og 120 mínútur fyrir 1.–4. bekk, þ.e. 10% skerðing.

Hvers vegna er þetta frumvarp lagt fram? Jú, það er lagt fram til þess að bregðast við mjög miklum vanda sem víða er í rekstri sveitarfélaganna. Við þekkjum það að mörg þeirra glíma við mikinn rekstrar- og fjárhagsvanda, ekki bara þau sem hafa verið mest í umræðunni heldur er þetta vandamál sem við er að glíma mjög víða í sveitarfélögum. Á sama tíma og skuldir þeirra hafa hækkað, m.a. í kjölfar aukinnar verðbólgu og hruns gjaldmiðilsins eins og allir þekkja, hafa tekjur þeirra margra eða nánast allra líka dregist saman, jafnframt því hafa útgjöld aukist vegna þess að samdráttur og erfiðleikar í þjóðfélaginu hafa gert það að verkum að sveitarfélög hafa orðið að grípa til ýmiss konar útgjalda til að mæta þeim vanda og þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um það.

Ég vil vekja athygli á því að strax á árinu 2008 gripu sveitarfélögin sjálf til úrræða í rekstri sínum. Mörg þeirra hafa þegar beitt miklu aðhaldi í rekstri og hækkað jafnvel álögur á íbúana til þess að ná endum saman. Það er mat sveitarstjórnarmanna almennt að nú þrengist mikið um þá hagræðingarkosti sem fyrir eru án þess að skerða grunnþjónustuna. Það er búið að reyna að hagræða á mörgum sviðum eins og ég nefndi áðan, hækka tekjur, en auðvitað kemur að því að ekki verður gengið mikið lengra án þess að skerða sjálfa grunnþjónustuna sem sveitarfélögunum er ætlað að sinna. Við vitum að sveitarfélögin sinna mikilvægum málaflokkum.

Sveitarfélögin hafa m.a. með hendi lögbundin verkefni sem ekki verður vikist undan, grunnskólarnir eru meðal þeirra. Þess vegna er mjög lítið svigrúm í hagræðingaraðgerðum þegar kemur að grunnskólum vegna þess að verkefnin eru lögbundin, t.d. um vikulegan kennslutíma o.s.frv., kjarasamningar setja líka skorður eins og gengur. Síðan eru önnur viðfangsefni sem sveitarfélögin hafa á sinni hendi sem eru ekki lögbundin þó að þau skipti gríðarlega miklu máli um land allt.

Ég ætla að taka dæmi um tónlistarskóla. Tónlistarskólar hafa vaxið mikið á undanförnum árum. Tónlistarnám er gríðarlega mikilvægt í uppeldislegu tilliti eins og allir vita en tónlistarskólar eru ekki lögbundin verkefni og þess vegna geta sveitarfélögin gripið til alls konar hagræðingaraðgerða hjá þeim. Gjöld vegna tónlistarskóla hafa í mörgum tilvikum hækkað. Maður heyrir það frá ýmsum sem hafa minna á milli handanna að þetta er þegar farið að valda þeim vanda að barnmargar fjölskyldur eiga ekki auðvelt með að gefa börnum sínum kost á því að stunda tónlistarnám. Þetta er ekki ástand sem við viljum. Við viljum ekki að það séu bara þeir sem eru efnameiri sem eigi þess kost að stunda tónlistarnám. Tónlistarnám hefur í sjálfu sér gildi eins og allt annað nám og þess vegna er mjög slæmt þegar þannig er ástatt að sveitarfélögin hafi ekki svigrúm til almennrar hagræðingar á sem flestum sviðum og neyðist því til þess að hækka t.d. gjöld í tónlistarskóla fyrir vikið.

Sveitarfélögin hafa neyðst til að hækka ýmsar aðrar gjaldskrár sínar, til dæmis á leikskólum sem óhjákvæmilega kemur niður á barnafólki. Við sjáum það í hagtölum sem hafa birst að barnafjölskyldur hafa farið hvað verst út úr því ástandi sem hér hefur verið ríkjandi á undanförnum árum. Það birtist líka í niðurgreiddum eða ókeypis skólamáltíðum, sem eru ekki lögbundnar heldur hjá sveitarfélögunum en hafa hins vegar margvíslega þýðingu. Ekki viljum við setja sveitarfélögin í þá stöðu að þurfa að hækka gjöld skólamáltíða mjög mikið. Það mun bitna sérstaklega á barnmörgum fjölskyldum og gera rekstur heimila þeirra miklu erfiðari. Við vitum líka að skóladagvistargjöld hafa hækkað. Ég sá tölur frá ASÍ um síðustu áramót sem bentu til þess að skóladagvistargjöldin hefðu hækkað um allt að 35% sem endurspeglar að sveitarfélögin eiga ekki margra kosta völ þegar kemur að því að fara í hagræðingaraðgerðir til að bregðast við þeim vanda sem við er að glíma í rekstri margra þeirra.

Við vitum líka að flest sveitarfélög, a.m.k. langflest á landsbyggðinni, hafa nýtt tekjumöguleika sína til hins ýtrasta. Möguleikar á auknum tekjum á sama tíma og atvinna er að dragast saman, laun hafa lækkað og kaupmáttur rýrnar eru þess vegna hvorki mjög miklir né líklegir til mikils árangurs. Úrræðin sem sveitarfélögin hafa til að láta enda ná saman eru þess vegna ekki mjög mörg eins og ég hef þegar vikið að.

Við þessar aðstæður er nauðsynlegt og óhjákvæmilegt í rauninni að hyggja að ýmsum öðrum tímabundnum kostum sem eru þó ekki æskilegir til lengri tíma. Við vitum að það er æskilegt að hafa vikulegan kennslutíma skóla eins og hann er núna samkvæmt gildandi lögum. Til lengri tíma er það gott og skynsamlegt og það gerðum við á sínum tíma. Hins vegar er réttlætanlegt við núverandi aðstæður að gefa heimild til þess að stytta vikulegan kennslutíma til bráðabirgða í því skyni sem ég hef þegar rætt.

Við gerum ráð fyrir því í athugasemdum við þetta lagafrumvarp að sveitarfélögin komi með ákveðnar mótvægisaðgerðir til að draga úr áhrifum vegna skerðingar á vikulegum kennslutíma og þá með sérstakri áherslu á yngsta aldursstigið í heildarskólatímanum.

Samkvæmt útreikningum sem við sem stöndum að þessu frumvarpi höfum aflað okkur má ætla að umrædd tillaga skili á bilinu 1,4–1,5 milljarða heildarsparnaði, en ef við tökum tillit til mótvægisaðgerða sem yrði gripið til gæti sparnaðurinn orðið 1–1,2 milljarðar á ári. Það eru því umtalsverðar fjárhæðir sem um er að tefla sem geta skipt miklu máli og m.a. komið í veg fyrir að hækka þurfi gjöld á ýmsum ólögbundnum þjónustuverkefnum sem sveitarfélögin hafa með höndum.

Ég vek athygli á því að það getur líka skipt miklu máli fyrir sum sveitarfélögin, einkanlega á landsbyggðinni, að eiga þess kost að útfæra þessa styttingu skólatímans með tilfærslu á kennslumagni milli mánaða. Það gæti líka aukið á þann sparnað sem þetta hefði í för með sér, m.a. vegna skólaaksturs, þrifa á skólahúsnæði o.s.frv.

Þeim hagræðingaraðgerðum sem við leggjum til að sveitarfélögunum verði gefinn kostur á að grípa til með þessari lagabreytingu er hægt að ná fram án þess að hrófla við kjarasamningum. Þetta er gagnsæ breyting sem viðkomandi skólar ættu auðvelt með að láta haldast í hendur við mótvægisaðgerðir innan skólanna.

Það verður auðvitað að leggja áherslu á að þær hagræðingaraðgerðir sem sveitarfélögin grípa til séu vel ígrundaðar og að reynt verði að meta áhrif þeirra á hvert hinna þriggja stiga grunnskólans. Sveitarfélög gætu því ákveðið að stytta ekki vikulegan kennslutíma fyrir t.d. yngstu börnin ef mat stjórnenda skólans og sveitarfélaganna væri að slík stytting hefði of neikvæð áhrif.

Þetta eru grundvallaratriðin í þessu frumvarpi. Það er hægt að hafa ýmis fleiri orð um það, en ég held að hreyft hafi verið við þeirri grundvallarspurningu sem er nú orðin mjög áleitin, sem er spurningin um jafnrétti til náms. Við viljum auðvitað hafa þjónustu sveitarfélaganna sem fjölbreyttasta, ekki síst þjónustu sem gagnast vel barnafjölskyldum. Þegar sveitarfélög standa frammi fyrir því að geta ekki hreyft sig á nokkurn handa máta við hagræðingaraðgerðir í grunnskólum þá kunna þau að verða tilneydd að grípa til annarra aðgerða sem geta leitt til þess að barnmargar fjölskyldur, fjölskyldur með minni heimilistekjur, geti ekki boðið börnum sínum upp á þátttöku í tónlistarskólum og öðru slíku eða skóladagvistun svo að dæmi sé tekið eða að njóta skólamáltíða svo að enn annað dæmi sé tekið. Þá vaknar upp sú áleitna spurning hvort með óbreyttu fyrirkomulagi verði ekki vegið að jafnrétti til náms fyrir alla þá sem þess eiga kost að njóta.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til, virðulegi forseti, að þessu máli verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.