140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

grunnskólar.

156. mál
[17:51]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki sagt að ég fagni framlagningu frumvarps af þessu tagi en ég kem hér upp af því ég tek heils hugar undir það. Frá því að sveitarfélögin tóku yfir grunnskólana árið 1996 hafa þeir vaxið og dafnað. Ég held að fæst okkar mundu vilja snúa aftur til baka og setja þá yfir á forræði ríkisins því að sveitarfélögin hafa sinnt þeirri þjónustu mjög vel í nærumhverfi sínu og þar á hún svo sannarlega heima.

Haustið 2008 breyttust aðstæður hér talsvert. Eins og fram kemur í frumvarpinu og greinargerðinni hafa mörg sveitarfélög sem og fyrirtæki hér á landi átt við mikinn rekstrar- og fjárhagsvanda að glíma síðan þá. Í mörgum sveitarfélögum, sérstaklega í þeim minni, tekur grunnskólinn um 80% af tekjum þeirra þannig að hann er gríðarlega stór liður. Það er því ekki skrýtið þó að sveitarfélögin hafi viljað beina sjónum sínum að því hvort hægt væri að fara í ákveðnar hagræðingaraðgerðir þar tímabundið.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur átt í viðræðum við mennta- og menningarmálaráðuneytið síðan þá og spurt hvort hægt væri að ræða þessi mál nánar. Ég er með greinargerð frá 2. desember 2009 sem sambandið leggur fram með góðum rökum fyrir ákveðinni útfærslu varðandi skólaárin 2010/2011 og 2011/2012. Nú er skólaárið 2011/2012 hafið og hefur ekkert bólað á öðrum viðbrögðum en þeim að það sé ekki hægt.

Í greinargerðinni segir að leggja verði áherslu á hagræðingaraðgerðir sem sveitarfélögin leggja til og vilja grípa til vegna grunnskólanna, þær séu vel ígrundaðar og þar sé fyrir fram reynt að meta hver áhrifin verða á skólastigin þrjú. Það er mikill metnaður innan sveitarfélaganna og innan Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fylgt hefur málinu eftir fyrir sveitarfélögin, að halda uppi gæðum í skólastarfinu. Staðreyndin er hins vegar sú að sveitarfélögin hafa farið allar leiðir. Sveitarfélögin hafa farið út og suður og það eru engar samræmdar aðgerðir í málaflokknum. Það er skemmst að minnast uppþota og umræðna sem flestir muna eftir í Reykjavíkurborg fyrir um ári síðan vegna hagræðingaraðgerða sem fara átti í í skólum. Fjöldi nemenda í bekk hefur aukist. Búið er að taka út möguleikann á valfögum í 10. bekk sem nemendur gátu nýtt sér í framhaldsskóla. Framhaldsskólinn varð að skera það niður þannig að sá möguleiki er ekki lengur fyrir hendi.

Það er mikill metnaður innan sveitarfélaganna fyrir því að reka góðan grunnskóla. Hann er fjöregg í hverju samfélagi. Það hefur ekki mikið um gæði skólastarfsins að segja að fækka 180 skóladögum í 170.

Við þurfum frekar að setja okkur mælanleg markmið. Þingmenn hafa bæði í dag og í gær rætt lesskilning nemenda, um OECD-kannanir, um PISA-könnun. Þess vegna er svo mikilvægt að fá mennta- og menningarmálaráðuneytið í lið með sveitarfélögunum til að fara í samræmdar aðgerðir.

Sú sem hér stendur er þeirrar skoðunar að allt of margir hafi þurft að fara þá leið að taka út sérkennslu og þjónustu við nemendur með sérþarfir. Ég tel að með því bætum við við kostnaðinn í framtíðinni. Þessir einstaklingar fá ekki þá þjónustu sem þeir þurfa í skólunum. Ég held að vandamálið vaxi þá bara og endi í framhaldsskólunum þegar fram í sækir.

Ég kem hér upp til að leggja áherslu á mikilvægi þess að frumvarpið nái fram að ganga, það verði tímabundið til þess að gefa sveitarfélögunum færi á því að sinna sinni lögbundnu þjónustu. Ég legg líka áherslu á að farið verði í samræmdar aðgerðir, að mennta- og menningarmálaráðuneytið farið í lið með sveitarfélögunum þannig að ekki sé farið út og suður í þessum málum sem bitnar bara á börnunum og starfsfólki skólanna og síðan á gæðum námsins og árangrinum sem skólarnir skila okkur.