140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

Vefmyndasafn Íslands.

121. mál
[18:10]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Vefmyndasafn Íslands, myndasafn Íslands, yrði nýjung á sviði safna á heimsmælikvarða. Tillagan miðar að því að koma upp vefmyndavélum á fjölmörgum stöðum á Íslandi; fallegum stöðum, sögufrægum stöðum, merkilegum stöðum. Nefnt er í tillögunni að byrja mætti með 150 vélar sem væru tengdar netkerfi þannig að fólk um allan heim gæti á þeirri mínútu sem það opnar tölvuna sína og flettir upp í myndasafni Íslands séð hvað er að gerast á svæði vefmyndavélarinnar, hvort sem það væri í miðbæ Akureyrar, við Gullfoss eða Geysi, Skógafoss, á Þingvöllum, í fjósi hjá bónda, eða fjárbúi. Vefmyndavél getur meira að segja verið um borð í fiskiskipi þar sem menn geta fylgst með mönnum ganga til verka. Þetta mundi setja Ísland í sérstakt sviðsljós. Að rækta upp slíkt myndasafn, vefmyndasafn, er ugglaust einhver besta landkynning sem hægt er að hugsa sér.

Það má áætla að hver myndavél kosti um 1,5 millj. kr. Ef miðað er við 150–200 vélar væri hægt að koma upp stórkostlegu aðgengi erlends fólks að Íslandi. Þetta mundi opna dyr fólks um allan heim að Íslandi. Menn gætu lagt áherslu á marga þætti í þjóðfélaginu sem væru aðlaðandi fyrir fólk til að koma nær og skoða. Það er sannfæring mín, virðulegi forseti, að slíkt vefmyndasafn mundi skila jafnvel hundruðum þúsunda ferðamanna til Íslands á hverju ári, því það er stórkostlegt að geta á augabragði séð nákvæmlega hvað er að gerast á þeim stað sem verið er að kynna.

Vefmyndavélum geta líka fylgt 5–10 mínútna kynningarmyndir um nærumhverfi staðarins sem verið er að mynda, um söguna og lífið sem þar fer fram þó að náttúrufyrirbrigðið sjálft væri mest í myndavél.

Þess vegna er tillagan lögð fram. Hún er metnaðarfull og yrði einsdæmi í heiminum því að þrátt fyrir að netvinnsla og netmöguleikar hafi verið til um langt árabil þá hefur slíkt safn aldrei verið sett upp. Við Íslendingar ættum að vera fyrstir í þeim efnum.