140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

stytting þjóðvegarins milli höfuðborgarsvæðisins og Norðausturlands.

36. mál
[18:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu á þessari tillögu. Það þarf ekki að koma á óvart að ég er andsnúinn tillögunni, hef verið það alla tíð frá því að hún kom fram og minnist þess þá að tillagan kom fyrst fram með svolítið sérkennilegum hætti. Það var sýslumaður fyrir vestan sem kom fyrst fram með tillöguna, ef ég man rétt, alla vega í þá veru sem ég kannast við hana. En það kann að vera rangt hjá mér að það hafi verið í fyrsta sinn sem hún kom fram.

Það má vera að andstaða mín við þessa tillögu sé vegna innansveitarbaráttu eins og kemur fram í greinargerð með tillögunni en ástæðan fyrir því að ég tek til máls um tillöguna er fyrst og fremst til að halda ákveðnum sjónarmiðum til haga og gera athugasemd við þann tón sem mér finnst vera í greinargerðinni.

Við þurfum líka að velta ákveðnum spurningum fyrir okkur þegar við ræðum samgöngumál og vegamál. Til hvers er þjóðvegurinn? Er þjóðvegurinn eingöngu til þess að það sé sem styst milli A og B eða milli Reykjavíkur og Akureyrar eins og mér sýnist þessi tillaga ganga fyrst og fremst út á? Eða er hann til að tengja saman byggðir, til að stuðla að betri lífsskilyrðum fólksins sem býr út um allt land? Er hann til að auðvelda fólki að komast á milli staða þó að það sé ekki á sem stystum tíma? Ýmsum svona hlutum hljótum við að velta fyrir okkur.

Vegagerð, þar á meðal þjóðvegur 1, er líka byggðamál. Hann er byggðamál að því leyti til að það skiptir máli hversu dýrt er að keyra um hann, það skiptir máli hversu dýrt er að flytja vörur um þjóðveginn. Það skiptir líka máli hvort einhverjir hafi hugsanlega atvinnu eða lífsbjörg sína af þessum vegi eins og öllum öðrum framkvæmdum eða samgönguframkvæmdum.

Ég er ekki endilega viss um að það sé rétt sem kemur fram í greinargerðinni að engin framkvæmd sé jafnhagkvæm þjóðhagslega, þ.e. stytting. Ég hugsa um Sundabraut í því tilviki og velti fyrir mér hvort áherslan hjá okkur sem þurfum að keyra inn í höfuðborgina — sem betur fer er verið að ráða einhverja bót á Suðurlandsveginum, en fyrir okkur sem komum hina leiðina skiptir ekkert meira máli held ég, og ég leyfi mér að fullyrða fyrir þá landsbyggðarmenn sem fara þá leið, en að stytta leiðina inn í höfuðborgina og gera hana greiðfærari og þar skiptir Sundabraut gríðarlegu máli. Ég sakna þess að þeir sem stýra höfuðborginni og ríkisvaldið skuli ekki hafa náð saman um hvernig eigi að ganga frá því máli.

Annað sem ég held að skipti miklu meira máli þegar við tínum til þau rök sem eru í greinargerðinni varðandi kostnað, veður, ófærð o.s.frv. er vegur um Öxnadalsheiði. Ætli þeir séu ekki nokkuð fleiri dagarnir sem hún er lokuð en þessi stubbur í Norðurárdalnum? Við sem keyrðum alltaf Norðurárdalinn áður en Þverárfjallsvegurinn kom — ég minnist þess að hafa farið þrisvar sinnum Svínavatnsleið vegna veðurs í Norðurárdalnum við Fremstagil og við Blönduós. En það er rétt, þar gerast oft válynd veður eða stundum í það minnsta. Öxnadalsheiðin er hins vegar miklu meiri farartálmi og að mínu viti væri skynsamlegra að reyna að finna leiðir til að stytta mögulega veginn þar og koma honum neðar í gegnum göng eða eitthvað þessar háttar til að sá vegartálmi yrði úr sögunni, ekki síst vegna þess að Öxnadalsheiðin er farartálmi fyrir þá sem þurfa að sækja sjúkrahúsþjónustu á Akureyri og ýmsa aðra þjónustu.

Í dag er það þannig, svo dæmi sé tekið, að aka þarf til Akureyrar með konur sem eru að fara að eiga börn úr sveitunum í kring og úr Norðvesturkjördæmi og þá þarf að fara yfir Öxnadalsheiði. Áherslan er röng, mér finnst rangt hjá hv. þingmönnum, þó að ég virði að sjálfsögðu skoðanir þeirra, að leggja áherslu á þetta mál með þessum hætti. Að mínu viti hefði átt að leggja áherslu á Sundabraut og laga Öxnadalsheiðina ef við horfum bara til Akureyrar, en auðvitað nær þessi vegur miklu lengra en það. En við þekkjum umræðuna, hún snýst fyrst og fremst um það að fyrirtækin, verslun og þjónusta á Akureyri fái betra rekstrarumhverfi og auðvitað skiljum við að það er mjög mikilvægt að fyrirtæki úti á landi búi við betra rekstrarumhverfi en þar er hægt að beita öðrum ráðum.

Hve oft höfum við ekki heyrt talað um það, og margir stjórnarþingmenn í dag sem hafa rætt um flutningskostnað, að beita skattkerfinu til að lækka flutningskostnaðinn. Ég held að nær væri að reyna að ná sátt um eitthvað slíkt í stað þess að reyna að koma af stað verkefnum sem þessum sem engar líkur eru á að verði á næstunni vegna þess sem hér er kallað innansveitarbarátta. Mér líkar ekki tónninn í þessari greinargerð. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Þó er hætt við, vegna innansveitarbaráttu, að sæst verði á einhverja málamiðlun sem gagnast fæstum landsmönnum öðrum en heimafólki í Austur-Húnavatnssýslu. Ef íbúar Blönduóss sitja við sinn keip gæti það leitt til þeirrar niðurstöðu að valin yrði styttri leið …“

Svo stendur, með leyfi forseta: „Eðlilega óttast ýmsir íbúar á Blönduósi að missa spón úr aski sínum …“ Og svo kemur sú snilldarhugmynd að það mætti koma upp þjónustu við hinn nýja veg. Ætla flutningsmenn tillögunnar að leggja til að verslun, þjónusta, veitingahús, sundlaug, tjaldstæði, hótel verði reist við hinn nýja veg?

Það er nefnilega þannig að það er ekki bara sjoppan á Blönduósi sem fær tekjur af þjóðveginum. Ég ætla ekki að fullyrða um töluna en mig minnir að beinar tekjur af því að þjóðvegurinn liggur í gegnum þetta byggðarlag séu rúmar 100 millj. kr. á ári. Það munar um minna í byggðarlagi og samfélagi sem telur nokkur hundruð manns. Málið er því ekki alveg svona einfalt. Og það að kalla sveiginn á veginum norður eftir totu ber líka vott um það að talað sé svolítið niður til þeirra sem þarna búa svo ég segi það bara hreint út. (Gripið fram í.) Hér stendur: „Hvergi á landinu, utan höfuðborgarsvæðisins, eru jafnmörg og stór framleiðslufyrirtæki og í Eyjafirði.“ Það er örugglega rétt.

Þeir sem reka fyrirtæki úti á landi dreifast eins og allir vita um allt landið og landsbyggðina. Við vitum um útgerðarfyrirtæki sem láta togarana sigla norður fyrir land og landa í heimahöfn til að sveitarfélagið fái tekjur af lönduninni, til að löndunarkarlarnir hafi tekjur, til að leggja sitt í púkkið í samfélaginu þó að það kosti jafnvel 3 millj. kr. aukalega að keyra fiskinn til Reykjavíkur þaðan sem hann er fluttur út. Þetta er samfélagssýnin sem þessi fyrirtæki hafa.

Vegur skiptir mörg byggðarlög, eins og t.d. Blönduós, líka miklu máli. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að íbúar og sveitarstjórnarmenn og ég vil taka fram sveitarstjórnarmenn í Norðvesturkjördæmi eða Norðvesturlandinu gamla eru á móti því breyta þessum vegi eða færa hann, ekki bara íbúar eða sveitarstjórnarmenn á Blönduósi.

Það er alveg rétt að samkeppnisstaða fyrirtækjanna á landsbyggðinni er skökk miðað við þau sem eru nær útflutningshöfnunum og sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu en það eru aðrar leiðir til að bæta þar úr og höfum við margrætt það eins og ég sagði. Ég sé heldur ekki rökstuðning fyrir því hér að þessi vegur leiði til aukins umferðaröryggis. Ef það er einhver sérstök hætta á þessari totu, sem flutningsmenn kalla svo, má eflaust bæta öryggi þar með einhverjum hætti.

Það má líka velta fyrir sér, ef þetta snýst um að stytta leiðir, hvort ekki hefði verið nær að þvera Eyjafjörð áður en komið er til Akureyrar til að Austfirðingar þurfi ekki að keyra þann botnlanga til að komast til höfuðborgarsvæðisins ef þetta snýst eingöngu um að stytta leiðir. En það snýst ekki bara um það, ágætu þingmenn sem hér eru og virðulegi forseti, þetta snýst líka um lífsbjörg þeirra sem þarna búa og hafa sitt lífsviðurværi af þessu malbiki.