140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

prestur á Þingvöllum.

74. mál
[18:46]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Þessi tillaga til þingsályktunar varðar prestsþjónustu á Þingvöllum. Það er meining flutningsmanna að ástæða sé til að koma því þannig fyrir að allar helgar ársins sé messað í Þingvallakirkju og gæti það að sjálfsögðu verið gert af öðrum aðilum en þjóðkirkjunni.

Séra Kristján Valur Ingólfsson, nýkjörinn vígslubiskup í Skálholti, hefur sinnt því starfi með miklum myndarbrag undanfarin ár en við teljum að ganga eigi lengra og tryggja þá þjónustu. Við höfum bent á að til að mynda væri skemmtilegt ef prestar landsins skiptu þessu með sér, einn prestur tæki eina helgi á ári.

Tillagan byggir á því að rækta söguna og staðinn á Þingvöllum þar sem kristni var lögtekin, hún er nú eitt af okkar þjóðarankerum, og með því móti væri enn frekar verið að opna dyrnar að Þingvöllum.