140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ESB-styrkir.

[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. fjármálaráðherra hvernig hann sjái fyrir sér framhaldið á Evrópusambandsviðræðunum næstu missirin.

Í fyrsta lagi er til þess að taka að hans flokkur sem nýverið lauk landsfundi tók það sérstaklega fram og ályktaði um að ekki bæri að taka við nokkrum styrkjum meðan á viðræðunum stæði, en nú hefur einmitt flokkur hæstv. fjármálaráðherra þegið í ráðuneytum sínum slíka styrki undir viðræðuferlinu. Fyrsta spurningin er: Er þess að vænta að breyting verði á þessu atriði?

Í öðru lagi hefur flokkur hans, og ég hygg hæstv. fjármálaráðherra jafnframt sem leiðtogi flokksins, talað um ýmsa fyrirvara varðandi viðræður við Evrópusambandið og mögulega aðild Íslands að sambandinu í framtíðinni. Þá vaknar sú spurning hvort það sé raunhæfur möguleiki að viðræðunum geti lokið með aðildarsamningi í tíð núverandi ríkisstjórnar ef ekki verður samið um alla þá fyrirvara sem Vinstri grænir segjast hafa á aðild við Evrópusambandið.

Loks er það stóra spurningin sem enn hefur ekkert svar fengist við: Hvernig verður farið með samning ef samningur tekst í tíð þessarar ríkisstjórnar? Fer hann í þjóðaratkvæði og hvað hyggjast þá Vinstri grænir gera eftir að þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu verður lokið? Verður atkvæðagreiðsla í þinginu um samninginn þar sem Vinstri grænir munu fylgja niðurstöðu skoðanakönnunarinnar, þessarar leiðbeinandi þjóðaratkvæðagreiðslu, eða hyggjast þingmenn Vinstri grænna (Forseti hringir.) og þar með hæstv. fjármálaráðherra fylgja stefnu eigin flokks í því máli? Þetta getur haft grundvallarþýðingu um það hvort slíkur samningur stendur eða fellur í þinginu.