140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ESB-styrkir.

[10:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi ályktanir á landsfundi okkar um helgina er reyndar ekki rétt hjá hv. þingmanni að þar hafi verið ályktað um að hafna bæri öllum styrkjum meðan á viðræðunum stæði. Tillaga sem gekk út á að hafna slíku alfarið var felld en hins vegar er hnykkt á því orðalagi í samþykktum okkar, sem er ekkert nýtt, að við munum ekki styðja og standa fyrir neins konar aðlögun fyrir fram að íslenskum stofnunum og regluverki sem þjónuðu þeim eina tilgangi að undirbúa aðild að Evrópusambandinu. Þar drögum við mörkin og með hliðsjón af því eru styrkjamál líka meðhöndluð í ráðherranefnd um Evrópumál af hálfu stjórnarflokkanna. Við höfum dregið upp ákveðið kort í þeim efnum um til hvers konar verkefna við teljum samrýmanlegt að fá fjármuni, hluti sem snúa að því að styrkja okkur í viðræðuferlinu, þýða skjöl og standa fyrir innleiðingu á EES-reglum sem við Íslendingar þurfum hvort sem er að gera eða eftir atvikum öðrum gagnlegum breytingum á stofnunum okkar og regluverki sem við mundum telja skynsamlegt að gera, óháð því hvort Ísland yrði einhvern tímann síðar aðili að Evrópusambandinu. Þetta snýr sem sagt að hinu, það verður ekki farið í verkefni af því tagi sem mundu eingöngu þjóna þeim tilgangi að breyta stofnunum eða lögum og reglum fyrir fram.

Varðandi grundvallarhagsmuni sem standa ber á í þessum efnum þarf ekki bara ályktanir VG til. Meiri hluti utanríkismálanefndar Alþingis dró mjög skýrt upp í nefndaráliti sínu þá mikilvægustu grundvallarhagsmuni sem við þurfum að standa á og verja í þessum viðræðum. Það stendur ekki til að veita afslátt af því. Þar um gildir nákvæmlega það sama.

Varðandi síðan meðferð málsins á síðari stigum, hvernig einhvers konar efnisleg niðurstaða verður borin fyrir þjóðina, höfum við tímann fyrir okkur í að skilgreina það nákvæmlega. Það ræðst líka af því hvernig Evrópusambandið væri tilbúið að láta það bera að. (Forseti hringir.) Mín skoðun er sú og hefur alltaf verið að það væri langheppilegast að þjóðaratkvæðagreiðslan hér kæmi í ferlinu áður en farið væri í innleiðingu í 27 ESB-ríkjum og áður en við (Forseti hringir.) gripum til neinna frekari ráðstafana annarra en þeirra sem hefðu falist í að fá efnislega niðurstöðu í samningaviðræður.