140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ESB-styrkir.

[10:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er unnið í samræmi við þá afgreiðslu sem málið fékk á þingi. Það er staðreynd og þá þarf þingið til ef málin eiga að taka einhverja aðra stefnu. Stjórnvöldum ber ósköp einfaldlega að vinna í samræmi við það sem ákveðið hefur verið með lögmætum hætti af meiri hluta á Alþingi. Málið er í þeim farvegi að það er verið að komast í eiginlegar samningaviðræður og láta reyna á þessa mikilvægu grundvallarhagsmuni okkar sem allir vita að skipta mestu máli þegar kemur að því að meta niðurstöðuna.

Ég held að menn ættu kannski að hefja sig aðeins upp úr hjólförunum og velta því fyrir sér sem verkefni þvert á flokka og fyrir þjóðina í heild að fá botn í þetta mál. Fyrr eða síðar þurfum við Íslendingar að fá í það niðurstöðu hvernig framtíðartengslum okkar við Evrópusambandið verður háttað því að við þurfum að taka mið af því í margvíslegri stefnumótun og áætlanagerð til framtíðar. Mér finnst að meðal annars formaður Sjálfstæðisflokksins ætti að hafa í huga (Forseti hringir.) að í hans eigin flokki eru auðvitað skiptar skoðanir um þetta eins og víðar og fjölmargir þar hafa væntanlega þennan sameiginlega skilning á að það sé, óháð flokkadráttum og flokkaböndum, mikilvægt fyrir Íslendinga að fá botn í það með lýðræðislegum hætti hvernig þessu verður háttað til frambúðar. (SIJ: Hefurðu enga skýra stefnu?)