140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

skuldastaða heimilanna.

[10:49]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt að hagur heimilanna ber vitni kreppunnar og niðursveiflunnar í kjölfar hrunsins. Hér er spurt um marga þætti í skuldaúrvinnslunni. Það er vissulega rétt að það þarf að hafa aga á henni og gæta þess að hún gangi fram með réttum hætti en það þarf líka að forðast innstæðulausa loftfimleika eins og ég sé að Sjálfstæðisflokkurinn leiðist út í í síðustu tillögum sínum þar sem hann tekur allt í einu upp hugmyndir um einhvers konar lyklalausn og að hægt sé að skila lyklum.

Það skiptir miklu máli að hafa skynsamlegar úrlausnarleiðir í skuldavanda heimilanna sem virka, eru sjálfbærar og leggja traustan grunn undir fjárhag, aðstæður og húsnæðisöryggi heimila til lengri tíma litið.

Hvað 110%-leiðina varðar er ljóst, vegna þess að hér er spurt um ólíka aðferðafræði, að ramminn sem Íbúðalánasjóður vinnur eftir er ákveðinn á Alþingi. Það var þverpólitísk samstaða um þann ramma sem 110%-leiðinni var skapaður í höndum Íbúðalánasjóðs. Hvað bankana varðar er það beinlínis afstaða Samkeppniseftirlitsins að ekki sé hægt að og ekki megi binda bankana í eina og sömu lausn að þessu leyti. Þeir buðu auðvitað viðskiptavinum sínum í upphafi ólík kjör og það er afstaða Samkeppniseftirlitsins að það sé mjög mikilvægt að bankarnir hafi svigrúm til að bjóða betri kjör en samkomulagið kveður á um.

Svo komum við að lífeyrissjóðunum. Það er alveg rétt sem sagt hefur verið að hlutur þeirra í 110%-leiðinni er afskaplega lítill. Hlutur þeirra í úrvinnslu skuldamála heimilanna er óþægilega lítill. Það getur auðvitað ekki verið þannig að lífeyrissjóðir landsins sem eiga mikið undir því að eiga samstöðu með fólkinu í landinu (Forseti hringir.) séu kröfuharðasti rukkarinn á íbúðalánamarkaði í dag.