140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

skuldastaða heimilanna.

[10:51]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Staðan er einfaldlega sú að vandi heimilanna er enn þá gríðarlega mikill og að ekki hefur tekist að ná utan um þennan vanda. Það þýðir að við þurfum að bregðast við því. Það eru engir loftfimleikar í því fólgnir að leggja fram tillögu um að bregðast við því.

Lítum til dæmis til 110%-leiðarinnar sem ég spurði hæstv. ráðherra sérstaklega um. Ítrekað hefur komið fram gagnrýni á það hvernig þessari leið hefur verið fylgt í fjármálastofnununum. Hvað finnst hæstv. ráðherra um það, hvernig ætlar hann að bregðast við því? Eftirlitsnefndin kemst greinilega að þeirri niðurstöðu að þau markmið sem sett voru fram hafi ekki náðst. Við hljótum þá hér að ætla að bregðast við því með einhverjum hætti.

Hæstv. ráðherra nefnir lífeyrissjóðina, að þeir þurfi að taka þátt í þessu. Hvaða tillögur hefur ríkisstjórnin til að mæta þeim vanda sem við blasir? Við verðum að horfa til þess að þetta getur ekki haldið svona áfram öllu lengur. (Forseti hringir.) Heimilin verða að komast út úr þessum óskaplega skuldaklafa sem þau eru í.