140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

veiðigjald á makríl og síld.

[10:56]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Eins og hv. þingmaður veit er í lögum kveðið á um veiðigjald. Það er lagt á við úthlutun aflaheimilda fyrir fiskveiðiárið. Fyrir yfirstandandi fiskveiðiár frá 1. september 2011 til 31. ágúst 2012 skal greiða 9,46 kr. fyrir hvert þorskígildiskílógramm úthlutaðra veiðiheimilda. Það er miðað við þessi þorskígildi og síðan eru þá aðrar fisktegundir metnar að verðgildi miðað við þorsk. Þorskur hefur stuðulinn 1. Samkvæmt þeim útreikningum sem þar komu út er þá loðnan með stuðulinn 0,1, ýsa 0,89 og makríll 0,22. Þessi aðferðafræði er bundin í lögum.

Ekki eru lagalegar heimildir til að leggja á önnur gjöld en þarna er um að ræða, hvorki leigugjald né önnur veiðigjöld. Ég minni hins vegar á að í vor lagði ég fram svokallað minna frumvarp um stjórn fiskveiða þar sem ég lagði til að veiðigjaldið yrði hækkað um 70%. Þingið féllst ekki á það en samþykkti hins vegar 40% hækkun á veiðigjaldinu. Það er þingið sem tekur þessar ákvarðanir.

Ég lagði líka fram tillögu um að tekið yrði leigugjald af ákveðnum meðaflategundum (Forseti hringir.) en það var ekki samþykkt í vor.