140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

svört atvinnustarfsemi.

[11:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Sláandi niðurstöður voru kynntar í skýrslu sem ríkisskattstjóri gerði í samvinnu við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins. Þar kom fram að 12% starfsmanna lítilla og meðalstórra fyrirtækja stunduðu svarta atvinnustarfsemi og er heildartap fyrir þjóðarbúið vegna þessa tæpir 14 milljarðar á ári. Þetta eru háar upphæðir í ljósi þess hvernig ríkissjóður stendur og uppskrift að því hvernig svört atvinnustarfsemi blómstrar í skattpíningarumhverfi.

Nú hefur ríkisstjórnin hækkað skatta og farið svo rangar leiðir í fjárlagagerð sinni að þarna birtast áhrif þess svart á hvítu. Þegar sett er upp svo flókið skattkerfi eins og þessi vinstri velferðarstjórn hefur komið upp, skattpíningarkerfi, blómstrar neðanjarðarhagkerfið sem aldrei fyrr.

Þessu til viðbótar er hagvöxtur keyrður hér á 60 milljarða útgreiðslum úr séreignarsparnaði sem brátt er á þrotum. Í ljósi þessa spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hvaða áhrif þetta hafi á fjárlagagerðina, sérstaklega í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur boðað mjög mikinn niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Þarna eru til peningar sem ekki skila sér og þar af leiðandi væri hægt að hlífa heilbrigðiskerfinu. Hvað ætlar ráðherrann að gera til að stoppa þetta neðanjarðarhagkerfi og hvernig sér ráðherrann þetta til framtíðar? Á að breyta skattkerfinu á þann hátt að (Forseti hringir.) fólk sjái sér ekki lengur hag í því að svíkja undan skatti?