140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[11:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Það eru aðgerðir í skattamálum, aðgerðir sem tengjast verðlagsbreytingum o.fl. Þetta er á þskj. 200, 195. mál þessa þings.

Hér er um að ræða ýmsar tillögur að breytingum á lögum er varða tekjuöflun ríkissjóðs í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2012. Þessum breytingum má skipta í fjóra meginflokka. Í fyrsta lagi eru breytingar sem tengjast yfirlýsingum stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga í maí sl. Í öðru lagi eru sérstakar tekjuöflunaraðgerðir sem liður í stefnu stjórnvalda um að ná jafnvægi í ríkisfjármálum á næstu árum. Í þriðja lagi eru hækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám í takt við verðlagsforsendur frumvarpsins og í fjórða lagi eru breytingar af ýmsum öðrum toga.

Ég mun þá fyrst fjalla um þær tillögur frumvarpsins sem tengjast yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga. Þær tillögur varða þrjá meginþætti, þ.e. lækkun tryggingagjalds, tímabundna hækkun gjalds í Ábyrgðasjóð launa og meðferð afdráttarskatts af vaxtatekjum aðila með takmarkaða skattskyldu. Ég vík nú að hverjum þætti þessa máls fyrir sig.

Í fyrsta lagi um lækkun tryggingagjaldsins. Á árunum 2009–2010 hækkaði tryggingagjaldið verulega, samtals um 3,16 prósentustig, en það var þó einungis sá hluti þess sem rennur til atvinnuleysistrygginga, atvinnutryggingagjaldið, enda jókst atvinnuleysi mjög mikið á þessu tímabili. Þó að nokkur óvissa ríki áfram um þróun atvinnuleysis á næstu árum liggur nú fyrir að atvinnuleysi mælist umtalsvert minna en áður. Gangi fyrirliggjandi spár í grófum dráttum eftir um minna atvinnuleysi á næstu missirum myndast svigrúm til þess að lækka atvinnutryggingagjaldið. Því hefur og verið heitið að það verði gert. Þannig er það að í þessu frumvarpi er lögð til lækkun á atvinnutryggingagjaldinu um 1,36% og er það í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga frá því í maí. Gera má ráð fyrir að með þeirri lækkun verði tekjur og gjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs í jafnvægi á árinu 2012 en innheimtar og markaðar tekjur stefna í að nema um 5,8 milljörðum kr. meira á árinu 2011 en nemur gjöldum. Þessi tillaga tekur mið af atvinnuleysisspá Hagstofunnar frá í apríl á þessu ári, 6,1% atvinnuleysi að meðaltali á næsta ári. Spá stofnunarinnar frá því í júlí var svipuð, að atvinnuleysi yrði að meðaltali 6%. Ný spá mun liggja fyrir um miðjan nóvember og verður þá að sjálfsögðu þessi breyting yfirfarin sem hér er lögð til á tryggingagjaldinu.

Samhliða breytingunni á atvinnutryggingagjaldinu er lögð til samtals 0,45 prósentustiga hækkun á almennu tryggingagjaldi en þeirri hækkun má skipta í tvennt eða í reynd þrennt. Í fyrsta lagi er um að ræða 0,25 prósentustiga hækkun almenna þáttar gjaldsins vegna ýmissa aðstæðna sem samkomulag var um að taka tillit til, svo sem aukinna útgjalda ríkissjóðs vegna almannatrygginga og kostnaðar sem ríkið tekur á sig vegna vinnumarkaðsaðgerða, einkum átaks í menntamálum. Áætlað er að þessi hækkun skili ríkissjóði 2 milljörðum kr. á næsta ári. Í öðru lagi er um að ræða tímabundna 0,2 prósentustiga hækkun á mörkuðum tekjum Fæðingarorlofssjóðs sem fer úr 1,08% í 1,28% af tekjustofni tryggingagjalds í ársbyrjun 2012. Markmið þessarar hækkunar er að vega upp uppsafnaðan halla á sjóðnum á síðustu árum þar sem tekjustofninn, hinn lögbundni, hefur ekki dugað til að standa undir útgjöldunum og þar hefur myndast uppsafnaður halli. Sömuleiðis eru þessi áform hluti af yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga í vor, þ.e. fallist var á að þessi slaki sem væri bæði í fæðingarorlofsgjaldinu og í gjaldi til Ábyrgðasjóðs launa yrði unninn upp samhliða því sem atvinnutryggingagjaldið yrði lækkað.

Samanlagt hafa þessar breytingar því í för með sér lækkun á tryggingagjaldi í heild upp á 0,91 prósentustig og nemur það um 8 milljörðum kr. sem greiðslur tryggingagjalds verða þá lægri á næsta ári en þær eru á þessu ári, og endurspeglast að sjálfsögðu fyrst og fremst í lægri útgjöldum vegna atvinnuleysistrygginga.

Gjald í Ábyrgðasjóð launa verður hækkað um 0,05 prósentustig af tryggingagjaldsstofni frá ársbyrjun 2012, tímabundið til þriggja ára, til að ná jöfnuði milli tekna og gjalda hjá sjóðnum. Gjaldið verður því 0,3% og er miðað við að hækkunin vegi upp uppsafnaðan halla á sjóðnum á síðustu árum. Árleg tekjuaukning vegna þessa nemur um 500 milljónum kr.

Í þriðja lagi er í þessu frumvarpi að finna ákvæði er varða afdráttarskatt af vaxtatekjum aðila með takmarkaða skattskyldu. Vorið 2009 var samþykkt breyting á lögum um tekjuskatt þess efnis að allir aðilar með takmarkaða skattskyldu, þ.e. aðilar búsettir erlendis sem hefðu vaxtatekjur hér á landi, skyldu greiða tekjuskatt af þeim tekjum. Skatthlutfallið er nú 20% sé rétthafi einstaklingur en 18% sé um lögaðila að ræða. Nokkrar undanþágur eru þó frá skattskyldunni og samkvæmt greinargerð með breytingunni var megintilgangur ákvæðisins að draga úr tekjutapi ríkissjóðs vegna tekjuhliðrunar og skattundanskota. Skatturinn kom til framkvæmda frá og með 1. september 2009.

Frá því að umrætt ákvæði var lögfest hafa komið upp ýmis álitamál, bæði varðandi túlkun og framkvæmd þessa efnis. Það leiddi meðal annars til þess að í yfirlýsingu stjórnvalda tengdri gerð kjarasamninga var tekið fram að fjármálaráðherra mundi leggja fyrir Alþingi á vorþingi 2011 tillögur um lagabreytingar vegna afdráttarskatts á vaxtagreiðslur til erlendra aðila þannig að hann næði einungis til vaxtatekna af íslenskum verðbréfum en ekki erlendra lánasamninga. Sú tillaga var kynnt á vorþingi en náði hins vegar ekki við nánari skoðun fyllilega tilgangi sínum og var því ákveðið að fresta málinu til haustsins.

Fyrir liggur að tekjur ríkissjóðs af umræddum skatti námu nálægt 3 milljörðum kr. á árinu 2010. Það sem af er þessu ári hafa innheimst rúmlega 3,3 milljarðar kr. að frádregnum endurgreiðslum sem nema samtals tæpum 140 milljónum. Einhver tilfærsla er á innheimtu skattsins milli ára þannig að leiða má að því líkur að tekjurnar verði svipaðar bæði árin, þ.e. nálægt 3 milljörðum kr. Á hinn bóginn liggur fyrir að beiðnir um endurgreiðslu á skattinum, m.a. á grundvelli tvísköttunarsamninga, hafa verið að aukast þannig að búast má við að nettótekjur ríkissjóðs af þessum tekjustofni yrðu að óbreyttu umtalsvert minni á næstu árum, nálægt 1,5 til 2 milljörðum kr.

Í ljósi þessa er áformað að endurskoða ákvæðið frá grunni með hliðsjón af norrænum rétti. Þar verður einkum horft til dönsku reglnanna, en þær snúa fyrst og fremst að viðskiptum tengdra aðila, enda í þeim tilvikum mest hætta á skattundanskotum í tengslum við lánasamninga með óeðlilegum vaxtakjörum. Í ársbyrjun 2012 verður þó stigið það skref að lækka skatthlutfallið úr 18% og 20% fyrir lögaðila og einstaklinga niður í 10% með það fyrir augum að endurskoðað og breytt ákvæði taki gildi frá og með árinu 2013.

Vík ég nú að sérstökum tekjuöflunaraðgerðum sem eru hvort tveggja í senn forsendur fjárlagafrumvarps fyrir komandi ár sem og mikilvægur þáttur í stefnu stjórnvalda um jafnvægi í ríkisfjármálum á næstu árum.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að dregið verði tímabundið, þ.e. á árunum 2012–2014, úr frádráttarbærni iðgjalda vegna viðbótarlífeyrissparnaðar frá tekjuskattsstofni þannig að hámark launþega verði 2% af launum í stað 4%. Áætluð tekjuáhrif eru metin 1,4 milljarðar kr. á ársgrundvelli, en einnig má búast við einhverjum óbeinum áhrifum af auknum veltusköttum vegna hærri ráðstöfunartekna. Þar við bætast jákvæð tekjuáhrif á sveitarfélögin og má ætla að 600–700 millj. kr. útsvarstekjur skili sér þá til sveitarfélaganna í ljósi fjárhæðarinnar sem ríkið fær.

Í öðru lagi er lagt til að hinn tímabundni auðlegðarskattur, sem að óbreyttu hefði fallið niður frá og með næsta ári verði framlengdur til ársins 2015, auk þess sem hann verður nú lagður á í tveimur þrepum. Tillaga frumvarpsins er sú að af auðlegðarskattsstofni einstaklings umfram 75 millj. kr. og til og með 150 millj. kr. og samanlögðum auðlegðarskattsstofni hjóna umfram 100 millj. kr. til og með 200 millj. kr. greiðist 1,5%, þ.e. sama hlutfall og greitt er í ár. Fari hins vegar nettóeign umfram 150 millj. kr. hjá einstaklingi og 200 millj. kr. hjá hjónum greiðast 2% af þeirri fjárhæð sem umfram er. Nái þessi tillaga fram að ganga mun auðlegðarskatturinn einungis hækka hjá þeim einstaklingum sem eiga eignir að frádregnum skuldum umfram 150 millj. kr. og samsvarandi hjá hjónum með samanlagðar eignir umfram 200 millj. kr. Miðað er við að viðbótartekjur af breytingunni verði nálægt 1,5 milljörðum kr. Og ég skýt því inn í, virðulegur forseti, að núna er upptaka auðlegðarskatts að ryðja sér til rúms í mun fleiri ríkjum og frægast er nú að Obama Bandaríkjaforseti hefur boðað að hann hyggi á skattlagningu af þessum (TÞH: Hvaða ofurtekjur …) toga. (Gripið fram í.)

Í þriðja lagi er lagt til að lokaskrefið verði tekið í innleiðingu kolefnisgjalds þannig að gjaldið verði miðað við fullt viðmiðunarverð á uppboðsmarkaði losunarheimilda í Evrópu í stað 75% nú. Áætlaðar tekjur af þeirri hækkun nema um 800 millj. kr. Auk þessa er lagt til í frumvarpinu að gjaldstofninn verði breikkaður frá og með árinu 2013 og nái þá einnig til losunar kolefnis af jarðefnauppruna í föstu formi. Gjaldið nái þannig jafnframt til brennslu kola og koks og einnig til rafskauta og skyldra vara úr kolefni af jarðefnauppruna. Miðað er við að skattlagning kolefna í föstu formi verði 50% af viðmiðunarverði losunarheimilda á árinu 2013 en hækki síðan í 75% og 100% á árunum 2014 og 2015. Viðbótartekjur ríkissjóðs af breikkun gjaldstofnsins og 50% gjaldhlutfalli eru áætlaðar kringum 1,5 milljarðar kr. á árinu 2013. Gert er ráð fyrir þessum tekjum í ríkisfjármálaáætlun til meðallangs tíma.

Ljóst er að taka þarf álagningu kolefnisgjalds til frekari skoðunar á næsta ári með hliðsjón af þeim breytingum sem fram undan eru á viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda. Þær eru meðal annars fólgnar í því að losun frá álverum og járnblendi mun að öllum líkindum verða háð losunarheimildum frá og með 1. janúar 2013. Óljóst er hvað muni taka við þegar fyrsta tímabili Kyoto-bókunarinnar lýkur. Það er meðal annars ástæða þess að breikkun gjaldstofnsins tekur nú einungis til eins árs í þessu frumvarpi, en hugmyndin er sú að skoða öll þessi mál heildstætt á árinu 2012 þannig að framtíðarfyrirkomulag kolefnisgjaldtöku eða skatta og losunarheimilda verði samræmt þannig að um eitt samræmt kerfi verði að ræða í þeim skilningi að skattbyrðin verði stillt af miðað við það hver niðurstaðan verður á báðar hliðar.

Í fjórða lagi er lagt til að hækkun almenns og sérstaks vörugjalds á bensín og olíugjalds verði einungis 2,5% þrátt fyrir að almenn viðmiðun við verðlagsuppfærslu krónutölugjalda í ársbyrjun 2012 sé 5,1%. Rökin fyrir minni hækkun þessara gjalda eru fyrst og fremst þau að draga úr áhrifum þriðjungshækkunar kolefnisgjalds á útsöluverð eldsneytis. Hátt heimsmarkaðsverð á bensíni og dísilolíu á hér einnig hlut að máli. Á hinn bóginn er lagt til að almennt og sérstakt kílómetragjald hækki til samræmis við aðrar verðlagshækkanir sem eru í frumvarpinu.

Tvennt þarf að nefna til viðbótar varðandi viðbótartekjuöflun ríkissjóðs á næsta ári sem ekki er að finna í þessu frumvarpi, annars vegar nýjan fjársýsluskatt sem ég mun mæla fyrir á eftir og er næsta mál á dagskrá, virðulegur forseti, og hins vegar áformaðar og í tekjuforsendum fjárlaga auknar tekjur af veiðigjaldi sem kæmi til framkvæmda frá og með upphafi næsta fiskveiðiárs, þ.e. frá og með 1. september 2012.

Gangi þessi áform eftir munu framangreindar skattbreytingar skila ríkissjóði 9,7 milljörðum kr. á árinu 2012 og er þá fyrirhuguð tekjuöflun af fjársýsluskatti og hærra veiðigjaldi talin með. Án fjársýsluskattsins og veiðigjaldsins eru tekjuáhrif frumvarpsins af ofangreindum aðgerðum tæpir 4 milljarðar kr.

Þá er einnig að nefna að í frumvarpinu er að finna tillögu um fjármögnun á sérstakri vaxtaniðurgreiðslu á árinu 2012. Til upprifjunar var í lok árs 2010 samþykkt bráðabirgðaákvæði um sérstaka vaxtaniðurgreiðslu sem var hlutur stjórnvalda í víðtækum aðgerðum vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna. Þessar greiðslur eru ígildi viðbótarvaxtabóta sem greiddar skulu út tvisvar á ári, 1. maí og 1. ágúst, í tvö ár, þ.e. 2011 og 2012. Greiðslur ársins 2011 hafa þegar farið fram og námu rétt liðlega 6 milljörðum kr. sem er í takt við áætlun um 6 milljarða kr. heildarkostnað á ári. Í forsendum fjárlagafrumvarps fyrir árið 2012 er gert ráð fyrir að forsendur og útgjöld vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu verði þær sömu og á árinu 2011. Í því samkomulagi sem ríkisstjórnin gerði við viðskiptabanka og lífeyrissjóði í tengslum við framangreindar aðgerðir segir að aðilar muni í samstarfi leita leiða til að þeir síðarnefndu fjármagni þessi útgjöld. Fyrir liggur samkomulag þess efnis að heildargreiðslur þessara aðila í formi tímabundinnar skattlagningar verði 3,5 milljarðar kr. á árinu 2011. Þar af verði hlutur viðskiptabankanna 2,1 milljarður kr., en lífeyrissjóða um 1.400 milljónir. Afganginn, þ.e. 2,5 milljarða króna, hefur verið ætlunin að ríkið fjármagnaði af sérstökum óreglulegum tekjum og voru þar sérstaklega hafðar í sigti tekjur sem tengjast uppboðum við afnám gjaldeyrishafta. Það má því segja að ríkið hafi þegar komið til móts við þá aðila sem féllust á það í desember sl. að leitað yrði leiða með þeim til að þeir bæru kostnaðinn af þessum sérstöku vaxtaniðurgreiðslum.

Síðastliðið vor var þannig lögfest nýtt ákvæði til bráðabirgða við lög um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki í þá veru að samhliða sérstaka skattinum yrði lagður á viðbótarskattur til að fjármagna hlut viðskiptabankanna í hinni sérstöku vaxtaniðurgreiðslu á þessu ári. Skattstofninn er sá sami en skatthlutfall þessa tímabundna skatts er 0,0875%. Um verður að ræða fyrirframgreiðslu 1. nóvember næstkomandi upp í endanlega álagningu á árinu 2011. Í þessu frumvarpi er lagt til að sama fyrirkomulag verði varðandi fjármögnun á hluta vaxtaniðurgreiðslunnar á árinu 2012 af hálfu viðskiptabankanna, þ.e. að þar komi greiðslur upp á 2,1 milljarð kr. Ekki liggur enn endanlega fyrir hvernig hlut lífeyrissjóðanna verður fyrir komið í þessum sérstöku vaxtaniðurgreiðslum en augljóst mál að þeir verða að skila sínu, enda getur einn aðili slíks samkomulags að sjálfsögðu ekki horfið frá því og ætlast til þess að aðrir standi við það.

Næst tek ég til umfjöllunar verðlagsuppfærslu einstakra skatta og gjalda. Frumvarpið hefur að geyma tillögur um almenna 5,1% hækkun á hinum svokölluðu krónutölusköttum og gjaldskrám í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarps með það að markmiði að fjárhæðirnar haldi raungildi sínu frá fyrra ári. Um er að ræða vörugjald á áfengi og tóbak og bifreiðagjald ásamt útvarpsgjaldi og gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra. Gert er ráð fyrir að hækkun á áfengisgjaldi og tóbaksgjaldi skili ríkissjóði 760 millj. kr. og hækkun bifreiðagjalds ætti að skila um 320 millj. kr. í viðbótartekjur. Viðbótartekjur ríkissjóðs af hækkun fjárhæðar sérstaks útvarpsgjalds eru áætlaðar rúmlega 200 millj. kr. og er áætlað að hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra skili ríkissjóði aukalega um 90 millj. kr. Mikilvægt er að nú hefur tekist að mestu leyti að vinna upp þann slaka sem um árabil hafði myndast í verðlagsþróun slíkra gjalda og á því að vera hægt að halda þeim í því horfi sem vera ber, að þau fylgi jafnan verðlagi og ekki verði safnað upp miklum slaka í þessum efnum sem kallar á að taka þarf stór skref vilji menn að tekjustofnar af þessu tagi fylgi verðlagi og rýrni ekki.

Að því er viðkemur hækkun á tekjuviðmiðum milli skattþrepa skal tekið fram að í lögum um tekjuskatt er kveðið á um að fjárhæðarmörk tekjuskattsstofns skuli hækka í réttu hlutfalli við hækkun á launavísitölu frá upphafi til loka næstliðins 12 mánaða tímabils. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að í ársbyrjun 2012 hækki umrædd fjárhæðarmörk í takt við almennar forsendur kjarasamninga á því ári, þ.e. um 3,5%. Þessi hækkun er einnig í takt við áætlaðar hækkanir bótafjárhæða í almannatryggingakerfinu á næsta ári miðað við forsendur fjárlagafrumvarpsins. Með tillögunni er gert ráð fyrir að þetta frávik frá gildandi reglu eigi einungis við fyrir árið 2012. Horfa þarf á umrædda tillögu í samhengi við að nú kemur á nýjan leik til framkvæmda full verðtrygging persónuafsláttar sem hækkar um 5,1% um næstu áramót miðað við júlíspá Hagstofunnar en flest bendir reyndar til að sú hækkun verði talsvert meiri, jafnvel 5,8%. Hvert prósentustig í hækkuðum persónuafslætti umfram forsendur fjárlagafrumvarps lækkar tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti um 1 milljarð kr. Til samanburðar má nefna að 7% hækkun á tekjuviðmiðunarmörkunum í stað 3,5%, eins og lagt er til í þessu frumvarpi, mundi lækka tekjur ríkissjóðs um 400 millj. kr. Þar eru ekki hinar stóru fjárhæðir á ferð heldur liggja þær fyrst og fremst í persónufrádrættinum.

Þá er komið að umfjöllun um aðrar breytingar í frumvarpinu. Þar ber fyrst að nefna sóknargjöld, en í frumvarpinu er lagt til að þau lækki úr 698 kr. á mánuði á hvern einstakling samkvæmt gildandi lögum í 677 kr. fyrir árið 2012. Með sama hætti er lögð til samsvarandi skerðing á framlagi ríkissjóðs til Kristnisjóðs. Samanlagt nema þessar skerðingar um 41 millj. kr. á árinu 2012 og eru til samræmis við almenn aðhaldsmarkmið.

Tillögur að minni háttar breytingum á barnabótum og vaxtabótum eru í frumvarpinu og snúa fremur að framkvæmd en efni. Lagt er til að lögfest verði ákveðin lágmarksfjárhæð varðandi ákvörðun og útgreiðslu barnabóta þannig að ákvarðaðar barnabætur til einstæðra foreldra og hvors foreldris í tilviki hjóna eða sambúðarfólks sem eru lægri en 2 þús. kr. við álagningu opinberra gjalda ár hvert falli niður. Einnig er lagt til að skuldajöfnun barnabóta á móti opinberum gjöldum og vangreiddum meðlögum verði áfram óheimil út árið 2012. Að lokum er hnykkt á því ákvæði að vaxtabætur verði einungis ákveðnar á grundvelli skattframtals.

Í frumvarpinu er einnig að finna tillögu um framlengingu á undanþágu frá greiðslu stimpilgjalds til ársloka 2012 þegar skilmálum fasteignaveðskuldabréfa er breytt eða ný veðskuldabréf eru gefin út til uppgreiðslu vanskila. Hér eru því framlengdar nokkrar ívilnandi ráðstafanir sem gripið var til framarlega í kreppunni og enn er talið rétt að hafa í gildi, a.m.k. út næsta ár.

Í frumvarpi þessu er jafnframt lagt til að lög um skattlagningu kaupskipaútgerðar verði felld brott, en enginn aðili hefur enn sótt um slíka meðferð. Þá hefur ESA úrskurðað lögin ólögmæt þannig að í raun er ekki mikið annað að gera en að nema þau úr gildi.

Loks er rétt að nefna að í frumvarpinu eru ákvæði um að olíugjald verði nú lagt á ólitaða steinolíu, þ.e. steinolíu sem er notuð á ökutæki, með sama hætti og gjald er lagt á gas- og dísilolíu enda ekki ætlunin að ósköttuð olía af því tagi verði orkugjafi í umferðinni í stórum stíl án þess að bera skatt til jafns við aðra.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um áhrif tillagna frumvarpsins á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt. Það er erfitt að meta af nákvæmni hvaða áhrif framangreindar aðgerðir hafa á einstakar efnahagsstærðir, eins og ráðstöfunartekjur heimila, verðlag eða kaupmátt ráðstöfunartekna, sem aftur hafa svo nokkur áhrif á framvindu efnahagsmála og þar með tekjur ríkissjóðs, enda eru aðgerðirnar margvíslegar. Þó má segja að þær eru almennt miklu minni að umfangi en þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í tvö undangengin ár og erum við að tala um hverfandi stærðir í samanburði við það. Þá er ljóst að áhrif þeirra, bæði bein og óbein, koma ekki einungis fram á árinu 2012 heldur einnig í einhverjum mæli á næstu árum.

Það má segja að minnkuð frádráttarbærni iðgjalda í séreignarlífeyrissjóð sem við gerum ráð fyrir að leiði til samsvarandi sparnaðar í inngreiðslum í séreignarsjóði auki ráðstöfunartekjur að því marki að óbreyttu. Aukningin mun þó til lengri tíma litið væntanlega leita í önnur form sparnaðar enda breytingin tímabundin og mun þá þurfa að leggja fyrir stærri hluta ráðstöfunartekna til að viðhalda sama sparnaðarstigi og áður. Til skamms tíma verða hrein áhrif iðgjaldabreytingarinnar á ráðstöfunartekjur líklega fremur lítil. Viðbótartekjuöflun í formi auðlegðarskatts hefur bein áhrif á ráðstöfunartekjur til lækkunar um 1,5 milljarða kr. Lækkun tryggingagjalds ætti hins vegar að hafa jákvæð áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna þar sem hún leiðir til lækkunar á tilkostnaði fyrirtækja sem gerir þau betur í stakk búin að greiða hærri laun, lengja vinnutíma eða fjölga starfsmönnum. Þar er að sjálfsögðu á ferð fjárhæð eins og ég áður nefndi, um 8 milljarðar kr., sem er af þeirri stærð að hún hefur nokkurt efnahagslegt vægi. Þegar allt er lagt saman ættu þær skattbreytingar sem kynntar eru í þessu frumvarpi að hafa jákvæð áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna á árinu 2012 og þar með eftirspurnina í hagkerfinu. Þar vegur að sjálfsögðu þyngst full verðtrygging persónufrádráttarins sem mun leiða til nokkuð lægri skattbyrði sem hlutfall af ráðstöfunartekjum langt upp eftir tekjuskalanum.

Áhrif hækkana í krónutölugjöldum og gjaldskrám koma fram í hærra verðlagi. Hér er um að ræða hækkun bensíngjalds og olíugjalds, en aðeins um 2,5% eins og áður sagði, hækkun áfengis- og tóbaksgjalds og bifreiðagjalds um 5,1% og síðan hækkun kolefnisgjalds um þann fjórðung sem eftir stóð miðað við viðmiðunarverð á losunarkvótum hjá ESB. Lauslegt mat bendir til að áhrifin gætu verið um 0,2% til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Sá þáttur mundi þá leiða til samsvarandi minnkunar kaupmáttar ráðstöfunartekna.

Heildaráhrif frumvarpsins á einstaklinga og fyrirtæki ættu að verða jákvæð en jafnframt fremur almenn. Afkoma ríkissjóðs versnar lítillega til skamms tíma litið vegna lækkunar tryggingagjalds og auðvitað vegna minni tekna af tekjuskatti í ljósi fullrar verðtryggingar persónufrádráttar. Þá þarf að sjálfsögðu líka að horfa til þeirrar tekjuöflunar annarrar sem ég hef minnst á og liggur utan þessa frumvarps og þá fyrst og fremst áform um fjársýsluskatt og tekjur af veiðigjaldi. Þessi tekjuöflun upp á tæpa 10 milljarða kr. er að sjálfsögðu mikilvæg forsenda fjárlagafrumvarpsins og ríkisfjármálaáætlunarinnar. Henni til viðbótar kemur sú óreglulega tekjuöflun sem gert er ráð fyrir í ríkisfjármálaáætluninni og við höfum rætt hér í umræðum um fjárlög og fjáraukalög, en þar er fyrst og fremst um að ræða áætlaðar tekjur af eignasölu og arðgreiðslum á komandi árum til að draga úr þörfinni fyrir annað tveggja, frekari beinar skattahækkanir eða tekjuöflunaraðgerðir eða meiri niðurskurð.

Í það heila tekið hefur framvinda þessarar áætlunar verið eins og til stóð. Tekjuáætlun yfirstandandi árs hjá ríkinu stendur traustum fótum og reyndar heldur yfir áætlun en undir miðað við nýjustu upplýsingar um álagningu lögaðila sem komu fram á dögunum. Ég get því glatt hv. alþingismenn með því að þar er ekkert óvænt á ferð nema síður sé því að það er heldur jákvæðara en við mátti búast. Hið sama held ég að hljóti að verða að segja um hagspá Seðlabanka Íslands frá því í gær. Það eru að sjálfsögðu ánægjulegar fréttir að nú meta menn kraftinn í efnahagsbatanum meiri á þessu ári en áður hafði verið spáð, að hagvöxtur verði hér yfir 3% sem hjálpar og styrkir grunninn fyrir fjárlög komandi árs. Sömuleiðis hefur Seðlabankinn nú endurskoðað tiltölulega neikvæða spá sína fyrir árið 2012 og hækkað hana úr 1,6% í 2,1% eða 2,3% sem er vissulega til bóta þó að enn sé það ívið lakari spá en sú sem við höfum byggt á frá Hagstofunni frá því í júlí.

Að öllu samanlögðu sýnast mér að þær forsendur sem við erum enn að tala um haldi nokkuð vel. Ég vek athygli á því að það eru ekki bara hagvaxtarhorfur á næsta ári sem skipta máli þegar grunnur fjárlaga er lagður heldur útkoman á þessu. Ef við tökum meðaltal yfir árin 2011 og 2012 fáum við ákveðinn grunn í þeim efnum og mér sýnist fljótt á litið að það teikni ekki til umtalsverðra breytinga, með þeim fyrirvara að sjálfsögðu að samtímamælingar af þessu tagi eru alltaf óvissu háðar og ber að hafa á þeim fyrirvara. Að sjálfsögðu bíðum við niðurstöðu Hagstofunnar sem kemur núna á næstunni og endurmetum stöðuna þegar hún liggur fyrir.

Þetta var sem sagt mín framsaga um frumvarp þetta, bandorm þennan, um ráðstafanir í ríkisfjármálum og að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.