140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[11:48]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það eru ýmsar hliðar á þessu máli. Auðvitað mætti velta fyrir sér þjóðhagslega hvernig við stöndum að vígi varðandi það að byggja upp þetta hraðan séreignarsparnað til viðbótar — menn ættu að hafa það í huga að hér erum við auðvitað að tala um hinn frjálsa séreignarsparnað til viðbótar samtryggingarkerfinu sem ekki er hróflað við. Ég hef verið eindreginn varðstöðumaður um sjóðsöfnunarlífeyrissjóðakerfið þannig að ég stíg varlega til jarðar í þeim efnum hvar sem er og hvenær sem er. Ég tel þessa ráðstöfun algjörlega réttlætanlega, ég tel mikilvægt að fara ekki lengra en í 2% til þess að viðhalda kerfinu og menn geta þá gert sínar áætlanir miðað við það að innan þriggja ára geti þeir aftur aukið greiðslurnar ef þeir eru í færum til þess.

Skattfrelsið freistar jafnvel manna til að greiða þarna inn sem geta þess vegna verið í þó nokkurri þörf (Forseti hringir.) fyrir að nota þessar tekjur, eins og við sjáum meðal annars á því að margir aðilar sem tekið hafa út inngreiddan séreignarsparnað eru jafnframt að greiða inn áfram. Það eru ýmis slík rök sem ég held að standi til þess (Forseti hringir.) að fara frekar í þessa aðgerð en aðrar ef menn ætla á annað borð að nota lífeyrissjóðakerfið eitthvað í þessum efnum.