140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[11:55]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má glögglega sjá að tilboðsleiðin er í raun og veru miklu hagfelldari leið til að átta sig á því hvað útgerðin getur borið af opinberum gjöldum þannig að hefðum við farið tilboðsleiðina í þessu tilviki værum við þá að minnsta kosti með umtalsvert meiri fjármuni í ríkissjóði og um leið hefði sú verðlagning verið miklu meira í takt við það sem útgerðin getur borið. En er ekki ráð að við tryggjum þessar tekjur til framtíðar, að við tökum þá endurskoðunina upp og breytum þessu kerfi þannig að við getum þá við fjárlagavinnu næsta árs — væntanlega verður hæstv. ráðherra hér að sama skapi staddur með bandorm að ári liðnu, þá væri nú óneitanlega gott að hafa einhverja milljarða til viðbótar sem við getum sótt með þessum hætti. Við eigum að tryggja tekjur af nýtingu auðlindarinnar í ríkissjóð og ráðherra hefur sagt að hann væri tilbúinn til þess og gæti klárað þetta mál á tveimur til þremur vikum og það hlýtur þá að vera í anda þess að tryggja arðsemi greinarinnar og að þjóðin njóti arðsemi af nýtingu auðlindarinnar.