140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:19]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé einfaldlega rangt sem hæstv. fjármálaráðherra heldur fram. Við vöruðum við því að ef þessi leið með afdráttarskattana yrði farin mundi það leiða til þess að starfsemi hyrfi úr landi, sem hún og gerði, og skatttekjurnar hyrfu með. Jafnframt vöruðum við við því að þetta mundi hækka fjármagnskostnað t.d. hjá Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur og fleirum sem mundi draga úr fjárfestingu.

Sú leið sem við lögðum tæknilega til að yrði frekar farin var danska leiðin. Það var algerlega á málefnalegan hátt borið fram, og verið er að taka það upp núna, tveimur árum seinna. Það er því ekki rétt sem hæstv. ráðherra segir, að tekið hafi verið málefnalega tillit til þess sem sagt hefur verið.

Hæstv. ráðherra talar um að verja tekjurnar og stórkostlegur árangur sé í því hvernig kerfinu hafi verið breytt. Hæstv. ráðherra hefur stundum vitnað í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en hann vitnar sjaldan eða aldrei í þann lið sem fjallar um að kerfið hafi verið flækt, gert flóknara og það hafi leitt til þess að skattframkvæmd sé öll miklu erfiðari og að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggi til í skýrslu sinni að kerfið verði einfaldað.

En það er aftur á móti rétt að ef tekjujöfnun er eina markmiðið þá hefur orðið nokkur tekjujöfnun en langt í frá sú tekjujöfnun sem menn eru að gefa í skyn að hafi orðið við þetta kerfi. Menn segja að kerfið hafi verið fært í átt til norrænnar fyrirmyndar. Það er hreint og beint ósatt nákvæmlega eins og við útskýrðum mjög kirfilega í greinargerð sem fylgdi með þegar þessi breyting var gerð á sínum tíma.