140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég sakna þess að formaður þeirrar nefndar sem fær þetta mál til umfjöllunar skuli ekki vera viðstaddur umræðuna. Það er mjög mikilvægt að hann fylgist með umræðunni og geti tekið inn í nefndina þær athugasemdir og þau sjónarmið sem koma fram í þessari umræðu. Einnig sakna ég þess líka að fleiri nefndarmenn í viðkomandi nefnd, sem ég sit ekki í, séu viðstaddir.

Ég ætla að byrja á því að tala um jákvæðu hlutina í þessu frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, aðgerðir í skattamálum, verðlagsbreytingar o.fl. Það er jákvætt að það sé svona snemma á ferðinni. Það fylgir eiginlega fjárlagafrumvarpinu og það höfum við ekki séð undanfarin ár. Það hefur stundum komið með miklum hasti undir lok árs og verið afgreitt í miklum flýti og með mikilli hættu á mistökum. Þetta er mjög jákvætt og nefndin mun fá góðan tíma til að fara í gegnum málið og finna á því agnúa ef einhverjir eru.

Ég verð líka að gleðjast yfir því að frumvarp til lokafjárlaga er komið fram og verður rætt á eftir. Svo verð ég að gleðjast yfir því að 1. gr. í þessu frumvarpi þýðir skattalækkun og ég er alltaf ánægður með skattalækkun, þ.e. að tryggingagjaldið er lækkað — reyndar vegna minnkandi atvinnuleysis. Það hafði verið hækkað óheyrilega mikið, tryggingagjaldið er ekkert annað en skattlagning á atvinnu og atvinna er eitt af því sem við þurfum kannski mest á að halda.

Það var mjög athyglisverð umræða áðan um áhrif skattlagningar á atvinnuþátttöku. Ég get alveg skilið það að skattlagning hafi ekki mikil áhrif á atvinnuþátttöku vegna þess að fólk þarf að vinna til að hafa lífsviðurværi. Hins vegar get ég ímyndað mér að skattlagning hafi áhrif á vilja manna til að afla meiri tekna, vilja manna til að sýna frumkvæði og dugnað, vilja manna til að mennta sig, vilja manna til að auka tekjur sínar. Það vilja bara allir vera á lágmarkslaunum ef skattlagningin er mjög mikil. Það er einmitt það sem við stefnum í núna, við stefnum í það. Ég kem inn á það eftir.

Það sem mér finnst uggvænlegt er þessi hristingur, það er verið að skekja skattkerfið svo mikið að það líður varla sú vika að ekki komi eitthvað nýtt í ljós, ný framkvæmd, nýtt álitamál o.s.frv. Allar áætlanir einstaklinga og fyrirtækja eru í uppnámi alla daga vegna þess að það er stöðugt verið að breyta forsendunum, t.d. hjá sjávarútvegsfyrirtæki sem ætlaði að fara að gera eitthvað og treysti því að gjaldið yrði óbreytt en nú stendur til að hækka það stórlega. Í þessu frumvarpi er lagður til fjöldinn allur af hækkunum og breytingum, aðallega breytingum sem er kannski það alversta. Til dæmis, eins og ég nefndi áðan í andsvari, breyting á því hvað menn geta dregið frá skatti vegna greiðslu í séreignarsjóð, það breytist úr 4% í 2%. Þetta ruglar allar áætlanir fólks. Það var búið að gera áætlun um að borga 4% af launum til æviloka í séreignarsparnað til að eiga svo og svo mikinn sparnað eftir ráðleggingum frá lífeyrissjóði sínum eða banka sínum. Það hefur farið fram heilmikil umræða um þetta, menn ætluðu að leggja á sig að taka 4% af tekjunum til hliðar og þá er því rústað vegna þess að nú er þetta orðið mjög óskynsamlegt. Nú verða menn að lækka sparnaðinn niður í 2% og gera nýjan samning o.s.frv. og eftir þrjú ár — ef þetta verður eitthvað varanlegt því að við sjáum í þessu frumvarpi að margt af því sem átti að vera til skamms tíma er breytt í varanlegt eða til lengri tíma og nefni ég þar auðlegðarskattinn — á sama tíma er sagt að breytingin sé til þriggja ára þannig að menn eiga að koma eftir þrjú ár aftur og gera nýjan samning. Þetta er endalaust hringl. Það er búið að gera yfir 100 breytingar á skattkerfinu síðan núverandi hæstv. fjármálaráðherra komst til valda og þetta eyðileggur allan vilja manna til að vinna.

Svo er það með fjárfestinguna. Fjárfesting á Íslandi er í algeru lágmarki og það tengist einmitt ráðstöfunum í ríkisfjármálum, hvernig menn ætla að ná inn tekjum og þessum sveiflukenndu ráðstöfunum sem gera það að verkum að það getur enginn farið í fjárfestingar. Fjárfestingar eru undirstaða þess og eiginlega forsenda þess að hér skapist atvinna. Það skapast engin atvinna án fjárfestinga og helst ætti fjárfestingin að vera í litlum fyrirtækjum. En þegar verið er að hrista og skekja umhverfið alla daga þannig að það er engin samfella og engu hægt að treysta þá er von að fjárfestingar séu komnar í lágmark, atvinnusköpun er í lágmarki og við flytjum út atvinnuleysi til Noregs og inn í háskólana. Mjög margt atvinnulaust fólk hefur farið í háskólanám, aðrir hafa farið til Noregs og til annarra landa. Svo er einn þáttur í viðbót sem mælist hvergi og það er fólk sem starfar á vegum íslenskra fyrirtækja í Noregi og er þar af leiðandi ekki atvinnulaust á Íslandi og er ekki heldur flutt til Noregs, það er í reynd atvinnulaust á Íslandi en mælist hvergi. Atvinnuleysið er því hærra en mælt er.

Hér er getið um það að lagðar verði mjög miklar álögur á útgerðina sem þýðir að þeir sem eru í útgerð halda náttúrlega að sér höndum, þeir fara ekki að fjárfesta ef þeir vita ekki hvað verður um þá fjárfestingu. Það er stöðugt verið að senda merki út í atvinnulífið um að menn eigi ekki að gera neitt og það óttast menn mest.

Við sjálfstæðismenn höfum í þrígang lagt fram tillögur um efnahagsráðstafanir og í reynd nýtt fjárlagafrumvarp. Við höfum lagt fram nýtt fjárlagafrumvarp í tvígang og munum væntanlega gera það aftur núna. Þær tillögur ganga út á það að stækka kökuna, ekki að vera stöðugt að hringla og klípa og taka af mönnum og gera alla hluti óörugga heldur að stækka kökuna þannig að ríkið fái meiri tekjur af meiri umsvifum en ekki vegna þess að það sé stöðugt verið að hækka skatta og höggva í sama knérunn.

Það sem ég óttast og ég óttast það raunverulega, herra forseti, er að þessi stefna hæstv. fjármálaráðherra þýði að við séum að stefna í kyrrstöðu, algera kyrrstöðu sem geti varað um árabil, kyrrstöðu og stöðnun. Það gerir enginn neitt og allir vilja fá einhver lágmarkslaun og eru bara ánægðir með það. Þetta er stórhættulegt til framtíðar. Svo má ekki gleyma því að forsenda fjárlaga er hagvöxtur upp á 3,1% sem er orðin mjög vafasöm forsenda.

Ég ætlaði rétt aðeins að fara í gegnum þetta. Það sem maður sér fyrst er ein grein, ógurlega stór og umfangsmikil, það er 10. gr. Hún fjallar um auðlegðarskatt, skatt sem á að gefa ekkert voðalega miklar tekjur en nær í þá aðila sem eiga miklar eignir. Þessi grein er núna orðin um tvær síður, tæplega þó. Tvær síður eru bara ein grein sem fjallar um það hvernig á að ná í þennan skatt. Hann er lagður á með þvílíkum hætti að það er eiginlega að æra óstöðugan að reyna að skilja það. Fyrst á að leggja á eignir mínus skuldir í árslok, síðan eftir árið á að skoða hlutabréf sem viðkomandi á, hvort það sé jákvætt eigið fé í þeim fyrirtækjum og þá er það jákvæða eigið fé tekið en ekki nafnvirði hlutabréfa eða eitthvað slíkt. Álagningin fer því alltaf fram í tveimur áföngum. Nú á að fara að bæta við einu skattþrepi í viðbót, ekkert voðalega mikil hækkun, það er hálft prósent. Til dæmis hjón sem eiga yfir 200 millj. borga 2% af því sem er umfram 200 en 1,5% af því sem er milli 100 og 200 millj. Það er sem sagt verið að flækja þetta enn frekar og enn meir og framlengja það náttúrlega, því að þessi skattur átti að vera til þriggja ára. Hann átti að vera í þrjú ár í árslok 2009, 2010 og 2011. Og þeim sem trúðu því og treystu að eitthvað væri að marka það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði þegar hann sagði að þetta yrði til þriggja ára kemur þetta í opna skjöldu núna. Þetta er allt á sömu bókina lært að þessu leyti.

Ég var búinn að nefna það jákvæða, lækkun tryggingagjalds. Síðan á að vera tímabundin hækkun á gjaldi í Ábyrgðasjóð launa. Aftur er verið að tala um eitthvað tímabundið og þetta á að vera 0,3%. Þetta er alveg ótrúlegt þegar maður les þetta, það er allt einhvern veginn tímabundið og skammtíma og hækkun hér og hækkun þar.

Gert er ráð fyrir sérfrumvarpi um 10,5% fjársýsluskatt á heildarlaunagreiðslur fjármálafyrirtækja sem við ræðum á eftir. Ég ætla ekki að fara djúpt ofan í það en það er aftur skattlagning á laun, skattlagning á tekjur, skattlagning á atvinnu. Það er eins og hæstv. ríkisstjórn sé meinilla við það að fólk hafi vinnu.

Svo er það um auðlegðarskattinn. Hann er framlengdur í þrjú ár eða gert ráð fyrir að hann framlengist um þrjú ár, sem sagt tvöfaldist tíminn úr þremur árum í sex ár og þá fer þetta að nálgast það að verða varanlegt og þá getur fólk kannski farið að treysta því að eitthvað standist. En hér er talað um að það sé ekki breyting á honum, þ.e. hann hækki ekki nema fyrir þá sem eru með yfir 200 millj. Bíðum við, er það ekki breyting þegar hann hækkar úr því að vera ekki neitt yfir í það að vera eitthvað? Ég hafði haldið að það væri heldur betur breyting, hann hækkar umtalsvert í árslok 2012, 2013 og 2014.

Svo er kolefnisgjaldið hækkað. Það á reyndar að hækka upp í 50% strax og síðan í 75% á árinu 2014 og loks upp í 100% á árinu 2015 og það er tekið mið af verði á losunarheimildum í viðskiptakerfi Evrópusambandsins um gróðurhúsalofttegundir. Það vekur aftur spurninguna: Af hverju í ósköpunum er svona kerfi ekki tekið upp hér á landi? Það virðist ekki vera neinn vilji til að taka upp markað með losanir sem ég held að yrði mjög brýnt.

Það á hækka bensíngjald og olíugjald og svona til að hafa þetta flóknara þá er það hækkað um 2,5% en ekki um 5,1% eins og aðrir skattar sem hækka, krónutöluskattar, og það er sennilega vegna þess að ríkisstjórnin hreinlega þorir ekki að ganga lengra í þessum efnum vegna þess að skattur á bensín og olíu er orðinn það hár að fólk er nánast hætt að keyra og tekjur ríkissjóðs hljóta að vera stórminnkandi. Maður sér það bara á umferðinni á götunum hvaða áhrif þetta hefur.

Síðan er fjármögnun um sérstaka vaxtaniðurgreiðslu. Það er skattur á bankana en það á eftir að leysa það með lífeyrissjóðina og ég veit ekki alveg hvernig menn ætla að leysa það. Það vantar 1,4 milljarða þar, og vegna þess að oft virðist vanta, líka hjá hæstv. fjármálaráðherra, skilning á því að lífeyrissjóðirnir eru eign sjóðfélaganna, þeir eru eign heimilanna, og ef á að fara að skattleggja lífeyrissjóðina fyrir sérstaka vaxtaniðurgreiðslu til skuldara þá er verið að skattleggja öll heimili fyrir sum heimili. Það vantar alveg þá hugsun að lífeyrissjóðirnir eru eign heimilanna og eru í raun mesti sparnaður heimila á Íslandi, reyndar þvingaður sparnaður en engu að síður sparnaður.

Svo er ég alveg sammála því að hækka alla krónutöluskatta um verðlagshækkanir. Ég hef alltaf verið fylgjandi því þannig að ég get ekki haft mikið út á það að setja nema að það er einn skattur sem ekki hækkar sem eru mörkin í auðlegðarskattinum. Þau ættu að sjálfsögðu að hækka líka, nema hvað? Þau ættu að hækka úr 100 í 105 millj., í 105 millj. og 100 þús. til samræmis við aðrar krónutöluhækkanir. Og svo er þetta ekki gert alveg varðandi tekjustigann, þar er ekki hækkað um verðlagshækkanir, þ.e. mörkin í stigaskattinum, sem maður hefði talið eðlilegt og það kemur fram sem aukin skattlagning á millitekjufólk, en það er kannski einmitt sá hópur sem minnst nýtur allra aðgerða á Íslandi og á núna að fara að bera hærri skatta.