140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þessar hugmyndir hefur að sjálfsögðu borið á góma. Við þekkjum þær. Þær hafa sprottið af því að lágt gengi krónunnar ætti að leiða til og er að leiða til umtalsverðs umframhagnaðar í útflutningsgreinunum og að einhverju leyti bætir það markaðsstöðu samkeppnisgreina sem hafa aukið hlutdeild sína innan lands á kostnað innflutnings eins og eðlilegt er við þessar aðstæður. Hins vegar er kannski hægara sagt en gert að ráðast í slíkar breytingar. Annars vegar verða menn að velta fyrir sér hvort um tímabundnar aðgerðir eigi að vera að ræða eða hvort menn sjái þetta fyrir sér sem nauðsynlega langtímaaðgerð til að jafnvægisstilla afkomu atvinnugreina, útflutnings- og innflutningsgreina. Eðlilegast er náttúrlega að gengi krónunnar þróist í átt til einhvers raunhæfs jafnvægisgengis og þetta stillist af í gegnum það. Ef menn gripu hins vegar inn í með sérstakri skattlagningu á tilteknar greinar er spurning hvernig sú þróun yrði og hvernig menn stýrðu málum að öðru leyti, einkum hvað varðar markmið um raunhæft jafnvægisgengi á gjaldmiðlinum til lengri tíma litið og sambúð þessara greina á vinnumarkaði o.s.frv. Þetta kemur því inn í flókið samhengi. Þó að tæknilega líti það þannig út í augnablikinu að svigrúm sé fyrir skattlagningu af þessu tagi er kannski hægara sagt en gert að útfæra það. En ég er alveg sammála að æskilegt væri að finna leiðir til að þessar greinar legðu meira af mörkum; sjávarútvegurinn, útflutningsiðnaðurinn, stóriðjan og jafnvel ferðaþjónustan að einhverju leyti, sem njóta góðs af því sama.

Svarið er því eiginlega bæði já og nei. Já, þessar hugmyndir eru vel þekktar og við höfum auðvitað rætt (Forseti hringir.) þær í almennri umfjöllun um skattamál og tekjuöflun ríkisins, en á hinn bóginn get ég ekki sagt að þetta hafi komið til raunverulegrar skoðunar í þeim skilningi að við höfum uppi áform um að ráðast í slíkar breytingar, það er meira en (Forseti hringir.) að segja það.